Elísabet Tanía Smáradóttir fagnaði 39 ára afmæli sínu í vikunni. Í tilefni af afmælinu ákvað hún að hlaupa 39 hringi í kringum Reynisvatn til styrktar Fjölskylduhjálp, alls um 49 kílómetra.
Í samtali við mbl.is segir Elísabet að hlaupið hafi gengið vel, þrátt fyrir vont veður. Alls tók hlaupið um 7 klukkustundir.
Hún segir að fjöldi fólks, vinir og vandamenn, hafi komið og veitt henni félagsskap í hlaupinu.
„Mig langaði að gera eitthvað við töluna 39, fannst ég verða að gera eitthvað því þetta er síðasta þrjátíu-og-eitthvað. Mér detta oft einhverjar klikkaðar hugmyndir í hug og langaði að gera þetta að einhverju meira í leiðinni svo ég hafði samband við Fjölskylduhjálp. Svo bara vatt þetta upp á sig,“ segir Elísabet.
„Það var fullt af fólki sem kom og hljóp með mér og vonandi fullt af fólki sem styrkti fjölskylduhjálp. Það var mjög gott að fá stuðning frá fólki.“
Elísabet segir að fjölskylduhjálp hafi orðið fyrir valinu „því það eru margar fjölskyldur sem leita til þeirra vegna bágra heimilisaðstæðna allan ársins hring, um jólin er enn meiri þörf á aðstoð og því er sannarlega þörf á stuðningi til þeirra.“