Hverfisbúðinni oft líkt við kaupfélag úti á landi

Bjarni Þór Logason og Rakel Ólafsdóttir.
Bjarni Þór Logason og Rakel Ólafsdóttir. mbl.is/Unnur Karen

„Rangá er hverfisbúð með fjölbreytt vöruúrval, langan afgreiðslutíma og hátt þjónustustig. Þessu er oft líkt við kaupfélag úti á landi, sem eru mikil meðmæli,“ segir Bjarni Þór Logason, kaupmaður í Rangá við Skipasund í Reykjavík. Verslunin varð 90 ára í gær og að sjálfsögðu var haldið upp á þau tímamót.

Rangá er elsta starfandi matvöruverslunin í Reykjavík, stofnuð árið 1931 af Jóni Jónssyni frá Ekru á Rangárvöllum. Reksturinn var fyrstu 17 árin á Hverfisgötu 71 en var fluttur árið 1948 á núverandi stað, Skipasund 56 í Langholtshverfi.

Árið 1971 keyptu Agnar Árnason og Sigrún Magnúsdóttir, seinna borgarfulltrúi og ráðherra, Rangá og gerðu að sjálfsafgreiðslubúð með mjólkursölu. Þannig varð Rangá fyrsta almenna verslunin með mjólkurvörur en fram að því hafði Mjólkursamsalan rekið sínar eigin verslanir.

Saman ráku Agnar og Sigrún Rangá í 20 ár, eða þar til Sigrún dró sig út úr starfseminni. Árið 2010 tók dóttir Agnars, Kristbjörg Agnarsdóttir, við keflinu og rak verslunina til 2019. Það ár keyptu reksturinn hjónin Bjarni Þór Logason og Rakel Ólafsdóttir, sem eru á myndinni hér til hliðar, og hafa staðið vaktina síðan.

Sækja daglegar nauðsynjar

„Ég hafði starfað lengi í matvöruverslunum og vissi að hverju var gengið. Okkur hjónin langaði líka alltaf út í eigin atvinnurekstur. Hér í Langholtshverfi er Rangá mjög mikilvæg stofnun. Við eigum marga fasta viðskiptavini sem sækja hingað daglega nauðsynjar. Margir koma hingað gangandi eða á hlaupahjólum sem kannski eru tímanna tákn,“ segir Bjarni Þór.

Ýmsar vörur sem fást í Rangá segir hann bjóðast óvíða annars staðar og nefnir þar m.a. gasbrennda sviðahausa frá Fjallalambi á Kópaskeri. Fleira góðgæti mætti tiltaka. Stóru heildsölurnar kunni síðan afar vel að meta 90 ára viðskiptasögu. Þess njóti Rangá með ýmsu móti í góðum kjörum.

„Mikilvægt er að mæta viðskiptavinunum og meta aðstæður þeirra. Nærsamfélagið kann að meta þetta og hve margir samfögnuðu okkur á afmælisdegi var ánægjulegt,“ segir kaupmaðurinn í Rangá. sbs@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert