„Jóhannes nauðgaði mér“

Tónlistarkonan Þórunn Antonía Magnúsdóttir er ein þeirra kvenna sem kærði …
Tónlistarkonan Þórunn Antonía Magnúsdóttir er ein þeirra kvenna sem kærði Jóhannes Tryggva Sveinbjörnsson fyrir kynferðislega misnotkun. Ljósmynd/Facebook

Tónlistarkonan Þórunn Antonía Magnúsdóttir segir síðustu þrjú ár hafa einkennst af nístandi kvíða á meðan hún beið eftir niðurstöðum í máli gegn nuddaranum Jóhannesi Tryggva Sveinbjörnssyni. Þórunn er ein fjögurra kvenna sem Jóhannes var sakfelldur fyrir að brjóta gegn. 

Dómur yfir Jóhannesi var þyngdur í Landsrétti í gær og hann dæmdur í sex ára fangelsi. Þórunn opnaði sig um málið í langri færslu á Facebook. Þar segir hún að um 35 konur hafi kært hann og hún viti til þess að hann hafi brotið á margfalt fleiri sem ekki hafi þorað að kæra. 

„Ég ætlaði ekki að kæra hann, á þessum tíma var svo margt erfitt í gangi í mínu lífi að ég treysti mér ekki í það enda eitt það erfiðasta sem ég hef gengið í gegnum að kæra mann fyrir nauðgun, viðmótið á lögreglustöðinni. Niðrandi athugasemdir i dómsal. Kvíðin að gerandi hefni sín og svo framvegis. Að ég verði drusluskömmuð fyrir alþjóð. Enn ein athyglissjúka gellan sem var svo heimsk að koma sér í þessar aðstæður alveg sjálf,“ skrifar Þórunn.

Hún segir að það hafi tekið mikið á hana að stíga fram og þora að kæra hann. „Aldrei í ferlinu spurði ég hvað ég fengi í bætur, því ég kæri ekki kynferðisbrot fyrir peninga. En gott að vita að það kostar einungis 1 milljón að nauðga mér,“ skrifar Þórunn. 

Langvarandi áhrif kynferðisbrots

Þórunn lýsir því hversu mikil áhrif nauðgunin hefur haft á líf hennar en á sama tíma og brotið var á henni glímdi hún við afleiðingar heimilisofbeldis. Hún segir brotið ekki bara hafa áhrif á hana heldur börnin hennar tvö, Freyju Sól og Arnald Þór. 

Ofbeldið sem hún hefur orðið fyrir hafi haft mikil áhrif á hana þegar hún gekk með bæði börn sín. Þau hafi bæði verið tekin með bráðakeisara. „Kynferðisofbeldi olli því að meðgangan og fæðingin gekk hræðilega. Ég fékk ofsakvíða og fæðingarþunglyndi. Ég var hrædd við karlkynslækna. Ég festist reglulega í bakinu, mjóbaki og ég náði ekki útvíkkun í báðum fæðingum, sem rekja má beint til áhrifa kynferðisofbeldis,“ skrifar Þórunn. 

Hún segir hann hafa bein áhrif á hana sem manneskju, konu og kynveru.

„Marblettur sem dofnar eða bein sem vex saman aftur. Jóhannes brást trausti mínu á mínum veikasta tíma. Fyrrverandi kærastinn minn hafði gengið það illa í skrokk á mér að ég var með mjög alvarleg líkamleg og andleg einkenni sem ég fól Jóhannesi fullt traust í að vinna með. Meiðslin lágu yfir mjaðmagrind, mjóbak og stoðkerfi. Jóhannes nauðgaði mér. Hann setti hendur sínar óvelkomnar inn í leggöngin mín. Inn í endaþarm. Hann hræddi úr mér líftóruna. Ég lá frosin á bekk í Bolholti 4 að vetri til með mann að nauðga mér eftir verstu lífsreynslu mína,“ skrifar Þórunn. 

Þórunn segir að hún hafi greinst með fjölþætta áfallastreituröskun í kjölfarið. 

„Ég er ekki reið, ég er ekki brotin, ég er ekki full af heift. Ég lít ekki á þetta sem sigur sem ég skála yfir. Þetta er harmleikur sem ótal konur og fjölskyldur þeirra eru þolendur í. Ég óska þess að þessi maður fái viðeigandi hjálp og að við sem samfélag trúum brotaþolum og berum virðingu fyrir þessu ferli og sýnum samkennd i garð þeirra hugrökku kvenna sem þora að stíga fram,“ skrifar Þórunn að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert