Skólastyrkir koma sér vel

Dagný starfar sem fyrirtækjaráðgjafi hjá Ernst & Young í Reykjavík.
Dagný starfar sem fyrirtækjaráðgjafi hjá Ernst & Young í Reykjavík. mbl.is/Árni Sæberg

Skólagjöld á framhaldsskólastigi eru há í Bandaríkjunum og því ekki á allra færi að sækja sér þangað menntun nema að fá til þess styrki. Það er einmitt leið sem íþróttafólk nýtir sér í auknum mæli, og þar á meðal er Dagný Lísa Davíðsdóttir, nýliði í A-landsliðinu, sem mætir landsliðum Rúmeníu og Ungverjalands í undankeppni EM í næstu viku. Hún var í námi í Bandaríkjunum í sjö ár, spilaði körfubolta með skólaliðum sínum og kom heim með tvær mastersgráður í apríl fyrr á árinu.

Eftir að hafa leikið með Hamri í Hveragerði og unglingalandsliðinu lá leiðin í menntaskóla í Philadelphiu. Hún ætlaði í körfuboltabúðir vestra með Hamri en fór frekar í unglingalandsliðsferð á sama tíma.

„Við höfðum safnað peningum til að fara í búðirnar og mér þótti mjög leiðinlegt að komast ekki en Keflavíkurstelpurnar fóru í sömu búðir skömmu síðar, ég fékk að fara með þeim, stjórnandi búðanna benti mér á tvo skóla, mér bauðst skólastyrkur í kjölfarið og ég fór út árið eftir.“

Dagný Lísa Davíðsdóttir stóð sig vel í Bandaríkjunum.
Dagný Lísa Davíðsdóttir stóð sig vel í Bandaríkjunum.

Tvær mastersgráður

Menntaskólinn sem hún fór í leggur mikla áherslu á íþróttir og sérstaklega körfubolta, að sögn Dagnýjar. „Ég var 17 ára og átti eftir tvö ár í stúdentinn þegar ég fór út með það að markmiði að halda þar áfram í háskóla,“ segir Dagný. Það gekk eftir. Eftir að hafa lokið BS-prófi í aðfangastjórnun og braustskráðst með MBA-gráðu í alþjóðaviðskiptum skipti hún um skóla í fyrra, fór til Wyoming og útskrifaðist með mastersgráðu í fjármálafræði í vor. „Það var strembið að vera í skólanum jafnt á veturna sem sumrin og spila með skólaliðunum, en ég er mjög þakklát fyrir allt námið, sem varla er hægt að stunda nema að fá fullan styrk, hef lært mikið og gaman er að nýta það í starfi.“ Hún leggur áherslu á að allur kostnaður hafi verið greiddur, s.s. skólagjöld, bækur, húsnæði og allt sem viðkom körfuboltanum.

Í Wyoming spilaði Dagný með skólaliðinu í sterkari og jafnari deild en áður og fór með liðinu í úrslitakeppni 64 liða, „marsfárið“ (e. March Madness) eins og það er kallað. „Veturinn í fyrra var algjört ævintýri, við sigruðum í okkar riðli og náðum því í úrslitakeppni bestu háskólaliða Bandaríkjanna. Það var frábær reynsla og kórónaði veruna úti.“

Háskólar í Bandaríkjunum eru misjafnir og áherslurnar með ólíkum hætti. „Möguleikarnir eru miklir og íþróttafólk getur almennt fundið eitthvað við sitt hæfi,“ segir Dagný. „Ég hvet körfuboltafólk til þess að íhuga þetta, því reynslan af því að spila í Bandaríkjunum skilar sér vel í auknum gæðum hérna heima.“ Hún býr í Hveragerði, starfar sem fyrirtækjaráðgjafi hjá Ernst & Young í Reykjavík og spilar körfubolta með Fjölni í efstu deild kvenna. „Ég byrja daginn í bílnum snemma á morgnana og lýk honum á sama stað seint á kvöldin, en það er gaman þegar nóg er að gera.“ Hún segist hafa farið í Fjölni vegna þess að hún hafi viljað spila í efstu deild, hafi litist vel á þjálfarana, markmið þeirra og uppbyggingarstarf félagsins. „Mikil áhersla er lögð á yngri stelpurnar með framtíðina í huga og gaman er að taka þátt í að efla ungu stelpurnar og lyfta körfuboltanum á hærra stig.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert