Slasaður maður sóttur á Langjökul

Frá útkalli björgunarsveitar á Vesturlandi.
Frá útkalli björgunarsveitar á Vesturlandi. Ljósmynd/Landsbjörg

Slasaður maður var sóttur upp á Langjökul af björgunarsveitum á Vesturlandi á fimmta tímanum í dag.

Þetta staðfesti vakt Slysavarnafélagsins Landsbjargar í samtali við mbl.is.

Talið var að maðurinn væri brotinn á sköflungi. Þyrla Landhelgisgæslunnar var ekki kölluð út heldur tókst að ná í manninn á bifreiðum og var maðurinn kominn í sjúkrabifreið á þjóðveginum um 45 mínútum eftir að björgunarsveitir héldu af stað. 

Ljósmynd/Landsbjörg

Uppfært: Eftirfarandi málsatvikalýsing barst frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg:

Björgunarsveitir á Vesturlandi voru kallaðar út í dag á Langjökul. Ungur maður slasaðist á fæti og komst ekki á sjálfsdáðum niður af Jöklinum, samferðafólk hans treysti sér ekki til að flytja hann um borð í bíl og keyra á móti sjúkrabíl. Fóru því sjúkraflutningamenn í fylgd björgunarsveita á jeppum upp jökulinn. Þegar komið var á vettvang var búið um þann slasaða, honum komið vel fyrir á sjúkrabörum og hann fluttur í björgunarsveitarbíl til móts við sjúkrabíl í Húsafelli.

Útkallið barst um klukkan 13 en lauk þegar allir viðbragðsaðilar voru komnir í bækistöð rétt fyrir kvöldmat. Vel gekk að flytja mannin niður en gæta þurfti þó fyllsta öryggis þar sem mikið er af spurngum á jöklinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert