Sólveig Anna Jónsdóttir, fyrrverandi formaður stéttarfélagsins Eflingar, segir að hópur óánægðra starfsmanna hafi bolað henni í burtu. Þá sé græðgi og „sjálftökustemning“ í kringum Eflingu.
Þetta kemur fram í viðtali við Sólveigu á Kjarnanum.
„Þau skildu aldrei þessa baráttu. Þau settu sig aldrei inn í hana af þeirri dýpt sem þarf til að skilja hana. Á endanum held ég að það sé vegna þess að þau viðurkenna ekki og skilja ekki þær aðstæður sem verka- og láglaunafólk innan Eflingar býr við,“ segir Sólveig Anna um starfsmennina sem voru óánægðir með hana.
Þá segir Sólveig Anna að starfsánægjukannanir sem hafi verið framkvæmdar á meðan hún var formaður Eflingar hafi verið á þann veg að starfsánægja væri almennt yfir meðallagi, samanborið við önnur fyrirtæki. Hún bendir á í viðtalinu að flest starfsfólk á skrifstofu Eflingar þiggi mánaðarlaun sem eru hærri en 700 þúsund mánaðarlega, það fái ókeypis heitan mat, sér skrifstofur, ríflega styttingu vinnuvikunnar og frjálslegan vinnutíma.
„Við Viðar erum mjög kappsöm og markmiðasett. Erum vinnusöm, með mikið starfsþrek og mikla orku. Það kannski gerir það að verkum, ásamt róttækri orðræðu, að ég varð jaðarsett innan vinnustaðarins,“ segir Sólveig Anna og vísar þar til Viðars Þorsteinssonar, fyrrverandi framkvæmdastjóra Eflingar sem sagði einnig af sér.