Að sögn Óla Þórs Árnasonar, veðurfræðings á Veðurstofu Íslands, kemur óveðrið í nótt á heppilegum tíma sólarhringsins en gular viðvaranir taka gildi víða um land seint í nótt.
„Þetta er náttúrulega bara yfir blánóttina þegar fæstir eru á ferli þannig að margir munu nú bara sofa þetta af sér,“ segir Óli Þór.
Spáð er 20 til 23 m/s býsna víða á sunnanverðu landinu þar sem vindur nær sér í austan-suðaustan átt að sögn Óla Þórs.
Hvassast verður á suður og suðausturlandi. Óli Þór bendir á að búast megi við hviðum á Kjalarnesi og undir Ingólfsfjalli og Eyjafjöllum. Þar getur vindur náð 35 m/s og kannski ríflega það. Þessu fylgir einnig töluverð úrkoma.
„En það sem er kannski breytingin frá því í gær er að þetta virðist kannski ganga heldur hraðar yfir en spáin gerði ráð fyrir fyrir í gær. Þannig að ég stytti þær aðeins,“ segir Óli Þór. Þannig muni spárnar taka gildi í Reykjavík á miðnætti en þær munu renna út klukkan fjögur um morguninn en ekki sex eða átt eins og upphaflega stóð til.
Aðspurður segir Óli Þór ekki endilega þörf á því að mælst sé til þess að fólk haldi sig heima í ljósi þess að viðvaranirnar eru í gildi á milli miðnættis og fjögur á suðvesturhorninu og þá eru tiltölulega fáir á ferli. Aftur á móti er Vegagerðin ekki með neina þjónustu yfir blánóttina.
Fólk verði því að sögn Óla Þórs að hafa heilbrigða skynsemi þegar það metur hvort vit sé í því að reyna að fara yfir fjallvegi þegar gular viðvaranir eru í gildi.
Hann bendir þó á að að það sé ágætt að hafa í huga að yfir Hellisheiðina og yfir Reynisfjall verður líklega slydda eða snjókoma þangað til það fer að líða á nóttina.