Kvennaathvarfið byggði fjölbýli

Sigþrúður Guðmundsdóttir.
Sigþrúður Guðmundsdóttir. mbl.is/Sigurður Bogi

Alls 18 leiguíbúðir eru í nýju áfangaheimili Samtaka um kvennaathvarfs, sem er í nýju fjölbýlishúsi í miðborg Reykjavíkur. Íbúðirnar eru 27-75 metrar að flatarmáli og hugsaðar sem úrræði fyrir konur – gjarnan með börn – sem dvalist hafa áður í neyðarathvarfi og geta ekki farið aftur á sitt fyrra heimili. Þegar er komið fólk í fimm íbúðir og fjölgar á næstu mánuðum.

„Áfangaheimilið er mjög mikilvægt. Þær konur sem til okkar koma eiga vonandi greiðari leið út í lífið aftur með þessu. Geta skapað sér góða framtíð með þessu úrræði,“ segir Sigþrúður Guðmundsdóttir, framkvæmdastýra Kvennaathvarfsins.

Til athvarfsins leita á ári hverju 130-150 konur, að börnum ótöldum. Konurnar eru þá að flýja ofbeldissambönd eða aðrar erfiðar aðstæður. Meira en helmingur kvennanna er af erlendum uppruna.

Fallegt hús í miðborginni sem verður fólki öruggt skjól.
Fallegt hús í miðborginni sem verður fólki öruggt skjól. mbl.is/Sigurður Bogi

„Stundum fá konurnar ekki lögskilnað frá mönnum sínum og njóta því takmarkaðra réttinda eða bótagreiðslna. Stundum eru konurnar svo mánuðum skiptir í athvarfinu, en fara svo út í lífið aftur og leigja íbúð sem tekur nánast allar ráðstöfunartekjur þeirra. Eru því í nánast læstri stöðu, hafa litla möguleika til að komast á beina braut og öðlast öruggt líf,“ segir Sigþrúður.

Leiga á íbúðunum í áfangaheimilinu verður fyrir lágmarksgjald, auk þess sem konunum mun bjóðast margvíslegur félagslegur stuðningur til betra lífs. Leigusamningar verða til eins árs og við undirritun þeirra gera leigutakar og ráðgjafar Kvennaathvarfsins áætlun um hvernig árið skuli notað á uppbyggilegan máta; svo sem í námi, starfi eða öðru sem hverjum og einum hentar. Að þeim tíma liðnum skal viðmiðið vera að konurnar – gjarnan með börn – fari út í lífið og þá í húsnæði á almennum markaði.

Byggingarkostnaðurinn um 480 millj. kr.

Áfangaheimilið nýja er hús á þremur hæðum og um 680 fermetrar að flatarmáli. Undirbúningur framkvæmda hófst árið 2017 og framkvæmdir snemma árs í fyrra.

Samanlagður byggingarkostnaður er um 480 milljónir króna. Um þriðjungur þeirrar upphæðar var stuðningur frá ríki og borg, skv. samkomulagi um mótframlög. Ríkið lagði raunar meira til og þá munaði líka mjög um framlög Oddfellow-reglunnar, Zonta-kvenna, Á allra vörum, Soroptimista og fleiri velferðarsamtaka. Fólk og ýmis fyrirtæki lögðu einnig í púkkið og þannig gekk kapallinn upp. Sjónvarpssöfnun, sem efnt var til fyrir um fjórum árum, var eitt af fyrstu skrefunum á langri og strangri vegferð sem nú, þegar litið er til baka, var vel þess virði, segir framkvæmdastýran.

„Bygging þessa húss er afrakstur bjartsýni, stórhugar, dugnaðar og þrautseigju stórkostlegra kvenna,“ segir Sigþrúður.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert