Með tæknina á takteinum

Við Winnipeg-vatn. Irvin Hjálmar fer í hjólaferðir þrisvar á dag.
Við Winnipeg-vatn. Irvin Hjálmar fer í hjólaferðir þrisvar á dag.

Dr. Irvin Hjálmar Ólafsson, fyrrverandi verkfræðingur og tannlæknir og áhrifamaður í íslenska samfélaginu í Manitoba í Kanada, varð níræður í gær en að öðru leyti var dagurinn hjá honum eins og hver annar. 

Sem fyrr var stefnan að fara í þrjá tæplega klukkutíma hjólatúra um Gimli, heimabæ sinn, spjalla við mann og annan á leiðinni, kíkja í bók á milli ferða og kannski setja staf á blað.

„Ég hef ekki verið mikið fyrir það að halda upp á afmælið, en börnin, makar þeirra og barnabörn komu mér á óvart og gerðu sér glaðan dag með mér hérna í Nóatúni á þakkargjörðarhátíðinni í október,“ segir kappinn síkáti, sem er alltaf að.

Valdi frændi og gulur hús

Hjónin frá Riverton, Irvin og Lois Lillian (áður Sigurðsson), sem lést 2015, reistu sér hús á Gimli fyrir nokkrum áratugum og kölluðu það Nóatún. Það er við Winnipegvatn, skammt suður af nýja víkingagarðinum. Þar var áður sumarhús Valdimars Lárussonar, prófessors við Manitoba-háskóla í Winnipeg. Í fyrstu af fjölmörgum heimsóknum blaðamanns til Valda á áttunda og níunda áratug liðinnar aldar var hann nýbúinn að mála húsið í hlýlegum gulum lit og þegar litnum var hrósað útskýrði hann ákvörðunina. Eftir heimsókn frá ættingjum á Íslandi hafði hann fengið póstkort frá ungum frænda. Þar hafði einfaldlega staðið „Valdi frændi, Gulur hús, Gimli, Kanada“, pósturinn hafði komið því til skila og því yrði litnum ekki breytt. „Nú er ég hissa en þetta er gott að heyra, góði minn,“ segir Irvin á íslensku, en hann er nýbúinn að mála Nóatún í sérstökum gráum lit. „Ég dytta að húsinu og sé um garðinn, en lifi annars rólegu lífi. Það gengur svona.“

Óvæntur hittingur. Í afmælisveislunni í Nóatúni, frá vinstri: Victoria Sparks, …
Óvæntur hittingur. Í afmælisveislunni í Nóatúni, frá vinstri: Victoria Sparks, James Langridge, Marno Olafson, Eric Olafson, Irvin Hjálmar Olafson, Jaye Olafson, Brent Jervis, Laurie Jervis-Olafson, Nils Broadhurst, Reyna Jenkyns, Kris Jenkyns-Olafson og Steven Olafson.

Irvin hefur oft verið fljótur að tileinka sér nýjustu tækni, var til dæmis með fyrstu mönnum til að fá sér þráðlausan kjöthitamæli til að geta fylgst með stöðunni á grillinu. Hann á tvö um 40 ára gömul reiðhjól og ætlaði sér að nota annað í varahluti, en Eric, sonur hans, gaf honum nýtt hjól á feðradaginn í júní sl. og það hefur komið sér vel. „Ég bjóst aldrei við því að eignast svona flottan grip,“ segir afmælisbarnið og þakkar fyrir að hafa ekki fengið rafmagnshjól. „Ég þarf að reyna á mig til að halda lífi og var kominn út, þegar þú hringdir.“ Þagnar en heldur svo áfram: „Ég gat svarað því ég er að sjálfsögðu með snjallúr.“

Hjónin voru oft á Flórída á veturna en Irvin fór hvergi í fyrravetur vegna kórónuveirufaraldursins og var það í fyrsta sinn í mörg ár. „Ég hélt mig bara hér á stað goðanna og hugsaði um sál og líkama, gat farið í göngutúra á hverjum degi og hitt kunningja og vini. Það var allt í fínasta lagi, góði minn.“ Hann bætir við að heilsan sé mjög góð, hann taki engin lyf og noti gleraugu aðeins við lestur. „Ég þakka hreystina góðu vali mínu á foreldrum!“

Irvin var atkvæðamikill í málefnum Vestur-Íslendinga. Hann stóð meðal annars að byggingu menningarmiðstöðvarinnar á Gimli, þar sem Safn íslenskrar menningararfleifðar á Nýja-Íslandi er á jarðhæðinni, og var í forystuliði átaksins „Fálkarnir um alla framtíð“ sem tryggði ólympíumeisturunum verðugan sess í íshokkísögu Kanada. „Ég er stoltur af verkum mínum og stoltastur af því að hafa verið sæmdur fálkaorðunni,“ segir Irvin, sem hefur heimsótt Ísland, móðurlandið, eins og hann kallar það, nokkrum sinnum, meðal annars í boði íslenskra stjórnvalda. Hann á ættir að rekja til Austfjarða en á enn eftir að fara þangað. „Kannski get ég talað Eirík, son minn, inn á að fara með mér. Þakka þér kærlega fyrir að benda mér á það, góði minn.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert