„Martraðir okkar eru að vera að veruleika,“ segir Wiola Ujazdowska en hún stendur fyrir þöglum mótmælum gegn þungunarrofslöggjöf Póllands fyrir utan pólska sendiráðið klukkan sex í kvöld. Ástæða mótmælanna í dag eru fréttir undanfarna daga af konum sem hafa látið lífið í Póllandi þar sem læknar neituðu að framkvæma þungunarrof.
„Þessi róttæku og virkilega ströngu lög setja líf kvenna í hættu og munu valda miklum sársauka og dauða þar sem læknar eru hræddir við að framkvæma þungunarrof,“ segir Wiola.
Æðsti dómstóll Póllands komst að þeirri niðurstöðu fyrir rúmu ári síðan að þungunarrof sem eru framkvæmd vegna þess að fóstur er með alvarlegan og óafturkræfan fæðingargalla væri brot á stjórnarskrá landsins. Þungunarrof er aðeins heimilt í þeim tilvikum þegar líf móðurinn er í hættu eða ef þungunin er afleiðing nauðgunar eða sifjaspells.
The Guardian greindi frá því að þúsundir hefðu mótmælt í Póllandi í gær. Ástæða mótmælanna var andlát hinnar ófrísku Izabelu sem lést á spítala í Póllandi. Að sögn fjölskyldu hennar lést hún þar sem starfsmenn spítalans neituðu henni um læknisaðgerð sem hefði getað bjargað lífi hennar þar sem þeir voru hræddir um að brjóta þungunarrofslög.
Mótmælendurnir hrópuðu „hjarta hennar sló líka" en haft er eftir konu sem dvaldi á sjúkrarúmi við hlið Izabelu að læknarnir höfðu sagst ekkert getað gert þar sem hjarta fóstursins sló enn.
Wiola bendir einnig á sögur af fleiri konum. Þannig nefnir hún að kona að nafni Anya hafi látist þegar hún var að fæða andvana barn sitt eftir að hafa verið neitað um þungunarrof af læknum og síðast í dag hafi hún heyrt í pólskum fjölmiðlum að kona að nafni Agatha hafi einnig dáið í svipuðum aðstæðum.
„Við vitum ekki hversu oft þetta hefur komið fyrir eða hversu margar konur hafa verið neyddar til að fæða börn og dáið í kjölfarið,“ segir Wiola.
„Fólk er virkilega reitt og í dag höfum við ákveðið að safnast saman fyrir framan pólska sendiráðið, því þar eru fulltrúar pólsku ríkisstjórnarinnarinn á Íslandi, til minningar um þessar konur og í rauninni fyrir fólkið sem er að deyja og er í hættu vegna ákvörðunar ríkisstjórnar okkar,“ segir Wiola.
Wiola segir krísuástand hafa skapast í Póllandi. „Við erum með rosalega stranga þungunarrofslöggjöf, strangan áróður gegn LGBTQ fólki, tíu manns hafa nú látist á landamærum Póllands og Hvíta-Rússlands þar sem hópi flóttamanna er haldið í skóginum af pólskum hermönnum og okkur skortir kynfræðslu og svo framvegis og framvegis.“
„Auðvitað eru þetta sérstaklega mótmæli gegn fóstureyðingarlögunum. Við viljum bara minnast þeirra kvenna sem létu lífið vegna þessara hræðilegu, hræðilegu laga í Póllandi,“ segir Wiola.