Dagný Fjóla Elvarsdóttir, önnur eigenda verslunarinnar Aftur nýtt á Akureyri, segir mikla vitundarvakningu um endurnýtingu og umhverfisvernd á Norðurlandi, sem skili sér meðal annars í aukinni eftirspurn eftir notuðum fatnaði og öðrum vörum.
Hún hefur orðið vör við þetta í verslun sinni, enda eru þar nánast eingöngu seldar notaðar vörur með svokölluðu loppufyrirkomulagi þar sem leigðir eru út básar til viðskiptavina sem selja sinn eigin varning til þriðja aðila.
Dagný fylgist vel með öðrum verslunum hér á landi sem selja notaðar vörur, en finnst sárt að sjá hve margar þeirra hafa horfið frá upphaflegum hugmyndum um endurnýtingu og umhverfisvernd og leyfi sölu á nýjum varningi í verslunum í miklu mæli. Jafnvel vörum sem virðist vera keyptar á Ali express þar sem öryggismerkingum er mögulega ábótavant. Henni þykir það mjög sorgleg þróun.
Nefnir hún sérstaklega pop it leikföng sem notið hafa notið mikilla vinsælda síðustu misseri. Það voru henni mikil vonbrigði að sjá slíkt til sölu í stærstu loppuverslun landsins, Barnaloppunni, sem er fyrirmyndin að hennar verslun. „Það sem getur gerst í þessu, ef þetta kemur frá Ali og er svona ódýrt, þá er mjög líklega mengað plast í þessu. Ég er ekki að segja að þetta sé svona í Barnaloppunni en pakkningarnar benda til þess að þetta sé þaðan,“ segir Dagný.
„Þau byrjuðu þetta á Íslandi og ég fór þangað og hugsaði með mér að það vantaði svona á Akureyri. Ég opnaði næstu svona búð á Íslandi. Í rauninni má segja að þau hafi verið mín fyrirmynd þá. En ég er búin að missa álitið núna.“
Dagnýju finnst það að leyfa sölu á slíkum varningi ekki samræmast hugmyndum um umhverfisvernd og endurnýtingu. Henni finnst eins og slakað hafi verið á kröfum hvað þetta varðar, þegar þróunin ætti frekar að vera í hina áttina.
„Við erum ekki saklaus hérna á Akureyri en við höfum þróað þetta og það er langt síðan við bönnuðum svona,“ útskýrir Dagný og vísar til skilmála á heimasíðu verslunarinnar þar sem fram kemur að ekki sé heimilt að hafa vörur keyptar frá Ebay, Wish og Aliexpress til sölu í verslunninni. Þá sérstaklega ekki óvottaðar vörur. Ekki er heldur í boði að vera með sjálfstæðan rekstur innan verslunarinnar, nema í sérstökum tilfellum.
„Við höfum ekki lent í neinu veseni með þetta. Það er ekki algengt að verslanir biðji um að fá að vera inni hjá okkur. Þetta eru fyrst og fremst notaðar vörur. Það er ekki langt síðan að einhver pantaði sér bás og ætlaði sér að vera með svona, en ég sagði nei,“ segir Dagný og á þar við pop it.
Hún segir þau vega og meta aðstæður í hvert skipti þegar það kemur beiðni um að fá að setja upp bás með nýjum vörum hjá þeim. „Við höfum sjálf farið rosalega varlega í þetta. Við getum verið með netverslanir og annað inni hjá okkur, en vera með kolaportið inni í umhverfisvænni verslun, það er bara hræðilegt. Fólk hér á Norðurlandi er allavega ekki til í þetta. Það kemur til okkar til að fá notaða vöru. Það er rosaleg vitundarvakning hérna.“
Sem dæmi um verslun sem hefur fengið að selja vörur í Aftur nýtt er prjónastofa sem seldi handprjónaðar vörur úr íslenskri ull. Dagný segir það hafa gengið mjög vel og viðkomandi aðilar hafi í framhaldinu sjálfir opnað verslun þar sem þeir selji sínar vörur.
Dagný telur að hægt sé að eyðileggja orðstír verslana með notaðar vörur með því að leyfa sölu á nýjum varningi í of miklum mæli. Það komi sér illa fyrir hana og hennar rekstur. „Mér finnst þetta bara svo sárt. Ég er mest hissa á Barnaloppunni því ég tek mína hugmynd þaðan,“ segir Dagný en bendir á að aðrar verslanir, eins og Gullið mitt og Trendport séu líka með pop it og fleiri sambærilegar nýjar vörur til sölu.
Andri Jónsson, annar eigenda Barnaloppunnar, segir þau fyrst og fremst vera umhverfisvæna verslun. Hlutfall af notuðum vörum í versluninni hjá þeim hafi aldrei farið yfir fimm prósent, en þau vilji helst ekki hafa hlutfallið hærra en þrjú til fjögur prósent. Þau hafi þó þurft að herða reglurnar nýlega því básum með nýjum vörum hafi farið fjölgandi.
„Núna upp á síðkastið eftir að þetta pop it æði kom inn þá eru alltof margir að sjá hag í því að selja hjá okkur og við viljum það ekki. Við höfum engan áhuga á að selja nýjar vörur og mikið af plasti þannig við þurfum því miður að herða reglurnar, þar sem almenn skynsemi var ekki að virka,“ útskýrir Andri.
„Það er kannski ekki sjáanlegt alveg strax því við getum ekki „cancleað“ fólki sem er búið að bóka. En eftir tvær, þrjár vikur mun sjást drastískur munur.“ Hann segir þetta ekki hafa verið orðið mikið vandamál en þau hafi þó verið farin að nálgast fjögur prósent mörkin sem þau hafi sett sér.
„Ef þig langar að selja svona vörur þá erum við ekki rétti vettvangurinn. Það er kannski allt í lagi að prófa hvort það virkar og þá geturðu hugsanlega farið að flytja inn eða opnað vefsíðu, en sem langtímastaðsetning fyrir sölu á nýjum vörum, það er ekki hjá okkur.“ Andri segir nýjar vörur heldur ekki seljast neitt sérstaklega vel hjá þeim. „Þú græðir miklu meira á því að selja notuðu vörurnar úr skápnum heima hjá þér, heldur en nokkurn tíma eitthvað annað.“
Aðspurður hvort þau hafi íhugað að taka alveg fyrir sölu á nýjum vörum, svarar hann því játandi. „Já við höfum gert það, en á móti kemur að við viljum líka vera til staðar fyrir þá aðila sem eru kannski að sauma sjálfir eða prjóna, eða lítil fyrirtæki með restar af lager sem þá koma hingað og selja í staðinn fyrir að urða, það er umhverfisvænna. Þá getur einhver notið góðs af því.“
Hvað merkingar og vottanir varðar segir Andri það mjög skýrt í reglum á heimasíðu verslunarinnar að allar nýjar vörur þurfi að vera CE merktar og vottaðar.
„Flestir af þessum aðilum hafa skilað þeim gögnum til okkar og þeir sem ekki eru búnir að því eru að bíða eftir svörum frá heildsala. Ég get ekki farið inn á ali og pantað 100 stykki af pop it til að selja hér og enginn veit hvaðan það kemur eða hvernig það er gert. Við höfum líka fullan rétt ef þessu er ábótavant og þá hikum við ekki við að taka vörur úr umferð og jafnvel eyðum bókunum. Við höfum gert það áður. Við viljum halda okkar stefnu alveg hundrað prósent og hún er umhverfisvæn.“
Guðni Þór Guðnason eigandi Gullið mitt, segir verslunina fremst hugsaða sem hringrásarverslun, en til að halda hringrásinni gangandi þurfi nýjar vörur að koma inn í hringrásina. Hann telur að hlutfall af nýjum vörum í versluninni sé rétt undir einu prósenti. Aðallega sé um að ræða náttföt fyrir börn, íþróttafatnað, skó og pop it vörur sem þau vilji gjarnan hafa til sölu.
„Síðasta ár hefur verið gríðarleg aukning í sölu á pop it vörum og við höfum verið að leggja áherslu á að fólk komi með svoleiðis til okkar. Það hefur gengið prýðilega og við höfum tekið þátt í þeirri bylgju. En það er ekki markmið hjá okkur að vera með meira af nýjum fatnaði en notaðan,“ segir Guðni og bendir á að hjá þeim seljist um 7.500 til 9.000 notaðar vörur á mánuði.
„Við sjáum það til lengri tíma að básaleigjendur kaupa vörur þegar þeir eru að selja í búðinni og við sjáum sömu vörurnar koma aftur inn í búðina og það er það skemmtilega við þetta. Við sjáum líka að náttfötin sem eru seld ný eru að koma aftur inn í búðina á básana og seld sem notuð.“
Aðspurður segir Guðni mjög mikilvægt fyrir reksturinn að þær vörur sem seldar eru í versluninni uppfylli kröfur sem gerðar eru af Evrópusambandinu. „Það er mikið inni á Ali sem er CE merkt og fullgilt en aðrar vörur eru það ekki.“ Starfsfólk fylgist vel með hvort vörurnar séu rétt merktar, að hans sögn.
Ekki hafi þurft að setja reglur um hlutfall eða fjölda bása sem megi selja nýjar vörur. „Þetta hefur haldist náttúrulega í skefjum. Við höfum fengið tilboð frá birgjum sem vilja koma með vörurnar sínar til okkar en við höfum þurft að segja nei við því. Við viljum ekki að stærri birgjar komi og drekki okkur í nýjum vörum.“