Veruleg leysing var á Hofsjökli í sumar samkvæmt mælingum Veðurstofu Íslands. Hún var einkar mikil á norðanverðum jöklinum. Ársafkoma Hofsjökuls 2020-2021 er -1,33 metrar (vatnsgildi) en meðaltal áranna 1991-2020 er -0,92 metrar. Rýrnun Hofsjökuls á þessu ári var 45% umfram meðaltal síðustu ára.
„Neðstu hlutar jökulsins, sporðarnir, hafa lækkað um marga tugi metra og jafnvel upp undir hundrað metra sums staðar,“ segir Þorsteinn Þorsteinsson, jöklafræðingur hjá Veðurstofunni.
Langjökull liggur lægra en Hofsjökull, nær upp í um 1.400 metra hæð, og Þorsteinn segir hann því veikari fyrir hlýnun, sem er meiri í neðri loftlögum en í þeim efri. Haldi hlýnun áfram og rýrnun jökla verður líklega lítið eftir af Langjökli í lok þessarar aldar. Hofsjökull nær upp undir 1.800 metra yfir sjó og á því betri möguleika. Stærð Vatnajökuls veldur því að hann getur mögulega lifað í 350 ár miðað við áframhaldandi hlýnun.
Niðurstöður mælinga á Hofsjökli voru kynntar á fundi norrænna jöklafræðinga í Ósló í vikunni. Að sögn Þorsteins kom þar fram að jöklar í Noregi hafi einnig rýrnað mikið. Þar eru að myndast hundruð nýrra stöðuvatna framan við jöklana. Einnig voru kynntar niðurstöður varðandi jökla í Alaska og á Svalbarða sem allar hníga í sömu átt.
Veðurstofan segir að rýrnun Hofsjökuls komi ekki á óvart í ljósi hlýinda á liðnu sumri, einkum í júlí og ágúst. Meðalhiti á Hveravöllum var til dæmis 10,6°C í ágúst eða 3,4°C yfir 30 ára meðaltali 1991-2020. Þá var sumarið óvenjusólríkt á Norðurlandi. Það getur skýrt mikla leysingu á norðanverðum Hofsjökli.
Umfang leysingarinnar í sumar kom í ljós við mælingar í leiðangri Veðurstofunnar á jökulinn 19.-22. október. Mælistikur stóðu 1-2 metrum hærra upp úr jöklinum en algengast er, að sögn Veðurstofunnar. Nokkrar þeirra höfðu kiknað í hauststormum og grafist í fönn. Á toppi hverrar stiku er lítil flaga þannig að hægt er að finna stikurnar með leitartæki. Því var hægt að finna stikurnar, rétta þær við og lesa af þeim hve mikið yfirborð jökulsins hafði lækkað um sumarið.
Hofsjökull nær frá 650 metrum og upp í 1.790 metra yfir sjó. Verulegur munur er á afkomu sumarsins milli ákomu- og leysingarsvæða.
„Á ákomusvæðinu ofan við 1.300 m hæð mælist snjólag vetrarins yfirleitt 4−7 m þykkt að vori og þynnist það um 1−2 metra yfir sumartímann vegna leysingar og þjöppunar. Á leysingarsvæðinu bráðna fyrst 1−3 metrar af vetrarsnjó og kemur þá jökulís fram undan snjónum; síðan bráðna 1−5 metrar íss seinni hluta sumars. Þar er snjóbráðnun og ísbráðnun lögð saman til að fá heildartölu um sumarafkomu. Mælt er á þremur ísasviðum á jöklinum, sem samanlagt ná yfir 40% af flatarmáli hans,“ segir í frétt Veðurstofunnar.
Afkoma Hofsjökuls hefur verið mæld árlega frá 1989. Á þessu tímabili hefur ársafkoman mælst neikvæð í 28 skipti en jákvæð fimm sinnum. Jökulárið 2020-2021 er það áttunda lakasta á 33 árum, sjö sinnum hefur árleg rýrnun mælst meiri. Hofsjökull hefur nú tapað tæplega 15% af rúmmáli sínu frá 1989.