Samningsviðræður talmeinafræðinga í pattstöðu

„Við erum ósátt að það sé ekki verið að bregðast …
„Við erum ósátt að það sé ekki verið að bregðast við þessu miðað við hvernig staðan er á þjónustunni, hve mörg börn eru að bíða og örvæntingunni sem foreldrar eru að upplifa,“ segir Kristín. mbl.is/Hari

Kristín Theódóra Þórarinsdóttir, formaður Félags talmeinafræðinga á Íslandi, segir stöðu samningamála félagsins við Sjúkratryggingar Íslands nú í pattstöðu.

Rammasamningur félagsins hefur verið sjálfkrafa endurnýjaður á meðan félagið er að berjast fyrir því að starfsákvæði verði fjarlægt úr samningnum.

Ákvæðið kveður á um það að til þess að talmeinafræðingur komist á rammasamning verður hann að hafa tveggja ára starfsreynslu.

„Við erum ósátt að það sé ekki verið að bregðast við þessu miðað við þá alvarlegu stöðu sem kominn er upp, hve mörg börn eru að bíða og örvæntingunni sem foreldrar eru að upplifa,“ segir Kristín í samtali við blaðamann mbl.is.

Það getur verið allt að tveggja ára bið til þess að fá þjónustu talmeinafræðings sem er á rammasamningi. 

Neyðast til þess að beita hörku

Kristín segir að heilbrigðisráðuneytið hefur afturkallað samningsumboð SÍ við félagið og málið verður nú sett í nefnd.

„Félagið setur þau skilyrði að ef heilbrigðisráðuneytið þokar málinu ekki áleiðis og skili af sér niðurstöðum fyrir áramót þá segi sjálfstætt starfandi talmeinafræðingar sig af samningi.”

„Við erum búin að vera mjög skýr, ef ekkert verður gert þá þurfum við að beita hörku.“

Kristín segir að félagið hafi verið í viðræðum við SÍ og heilbrigðisráðuneytið í langan tíma og hafa félagsmenn fundið fyrir skilningsleysi hjá samningsaðilum þegar það kemur að eðli þjónustunnar og störfum talmeinafræðinga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert