Skammtur þrjú gæti verið leiðin út úr faraldrinum

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að þriðja sprautan af bóluefni gegn Covid-19 geti mögulega verið leiðin út úr faraldrinum. Rannsóknir frá Ísrael hafi sýnt að þriðja sprautan sé 90% virkari en önnur í því að koma í veg fyrir smit.

„Ég er svo sannarlega að vonast til þess að þriðja sprautan muni geta gefið okkur þetta samfélagslega ónæmi,“ sagði Þórólfur í viðtali á Sprengisandi á Bylgjunni í morgun.

Hann sagði því mjög mikilvægt að ráðist yrði í það eins fljótt og hægt væri að bjóða fólki þriðja skammtinn og bjóða fólki sem hefði ekki þegið bólusetningu hana aftur. Þeim sem hafa náð 16 ára aldri verður boðinn þriðji skammtur, að minnsta kosti sex mánuðum eftir að þeir hafa fengið annan skammt.

Mjög fáir hafa smitast eftir þriðja skammt

Þórólfur sagði að ef niðurstöður rannsókna frá Ísrael reynist réttar muni þriðja sprautan veita samfélagslegt ónæmi. Þá hafi Ísraelar ekki orðið varir við alvarlegri aukaverkanir af sprautu tvö en þrjú. Jafnvel væru aukaverkanir fátíðari af þriðja skammti.

Hér á landi er bólusetning með þriðja skammti hafinn og hafa um 30.000 fengið slíkan skammt. Nokkrir úr þeim hópi hafa smitast af kórónuveirunni, að sögn Þórólfs sem sagði þó að um „mjög fáa“ einstaklinga væri að ræða.

Þórólfur sagði þá að reynslan yrði að leiða í ljós hvort þriðji skammturinn geri sitt gagn eða hvort fleiri bólusetningar þurfi í framtíðinni. Það væri þó alltaf skárri kostur en að leyfa veirunni bara að ganga frjálsri um samfélagið með tilheyrandi vandræðum fyrir Landspítala.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert