Skólar og stofnanir á frístundasviði á Akranesi verða opnuð aftur á morgun en skólarnir voru lokaðir á föstudag og eftir hádegi á fimmtudag vegna fjölda kórónuveirusmita sem greindust á Akranesi á miðvikudaginn.
„Núna erum við búin að taka ákvörðun um það að allar stofnanir og skólar á frístundasviði sem eru í rauninni leikskólar, grunnskólar, tónlistarskóli og frístundastarf muni verða með starfsemi á morgun,“ segir Sævar Freyr Þráinsson, bæjarstjóri Akraneskaupstaðar, í samtali við mbl.is.
Í gær voru starfsmenn leik-, grunn-, tónlistarskóla og frístundastarfs á Akranesi skimaðir fyrir veirunni. Að sögn Sævars var þátttakan góð og mættu ríflega 250 starfsmenn í skimun en enginn þeirra reyndist smitaður. Þrjú smit greindust þó á Akranesi í gær en þau greindust utan þessa hóps.
Að sögn Sævars ræddu þeir Þórir Bergmannsson, sóttvarnalæknir Vesturlands, saman í morgun. „Honum sýndist að við værum að ná toppnum á þessum smitum sem hafa komið hérna á Akranesi og það er útlit fyrir að þetta snögga inngrip, að loka, sé að byrja að virka hjá okkur. Við erum síðan búin að fara í þessar víðtæku skimanir og sýnatöku í samstarfi við sjúkrahúsið.“
Skólastarfið mun þó að sögn Sævars sæta einhverjum skerðingum í þeim tilfellum þar sem starfsmenn eða börn eru í einangrun eða sóttkví.
Að sögn Sævars mun hver og einn skóli á Akranesi senda foreldrum upplýsingar í dag um hvernig starfsemi verði háttað.
„En það er auðvitað með fyrirvara um það að staðan breytist ekki frá því sem hún er í dag,“ segir Sævar og bendir á að til dæmis hafi börn verið skimuð fyrir veirunni á heilsugæslunni á Akranesi í dag og að niðurstöður úr þeim verði ekki komnar fyrr en í kvöld.