Starfsmaður hafi hugsað um að vinna henni mein

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar.
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar. mbl.is/Hari

Sólveig Anna Jónsdóttir, fyrrverandi formaður Eflingar, segir að samstarfsmaður hennar á skrifstofu Eflingar hafi sagt við annan starfsmann að hann gæti hugsað sér að fara heim til Sólveigar, vinna henni mein og framkvæma eignaspjöll á heimili hennar. Þá hafi umræddur starfsmaður sagst vera með hreint sakavottorð og hann fengi því einungis skilorðsbundinn dóm fyrir brotin.  

„Manneskjunni sem hann segir þetta við er mjög brugðið. Hún leitar með þetta áfram og svo kemur þetta til mín [þann 13. október]. Mér er auðvitað mjög brugðið,“ sagði Sólveig í Silfrinu á RÚV í dag.

Þar lýsti hún því hvernig aðstæður á skrifstofu Eflingar voru orðnar áður en hún sagði af sér fyrir um viku. Sólveig hefur áður sagt, og ítrekaði það í Silfrinu í dag, að fámennur hópur starfsfólks hafi bolað henni burt úr starfi.

„Ég hugsa að fáar manneskjur hafi á undanförnum árum þurft að þola jafn ósvífnar atlögur að persónu,“ sagði Sólveig.

Lét sig hafa ýmislegt

Þar nefndi hún t.a.m. að hún hafi verið kölluð þjófur, peð, strengjabrúða og fleira. Þá hafi vissur hópur innan skrifstofunnar ekki borið virðingu fyrir henni og þótt í lagi að segja hvað sem er um Sólveigu og beita sér gegn henni með mjög grófum hætti.

„Ég hef umborið og látið mig hafa ýmislegt inni á skrifstofunum, strax frá fyrsta degi. Vanvirðandi framkomu, ég hef verið hundsuð, persónulegt rými mitt hefur ekki verið virt, svo mætti lengi telja. Ég reyndi að láta mig hafa þessa hluti vegna þess að ég vissi að það væri ávallt mjög erfitt fyrir mig að verjast þeim hatrömmu árásum sem færu af stað ef ég myndi beita mér með einhverjum harðari hætti inni á skrifstofunni.“

Sólveig vildi ekki svara því hvort hún hygðist aftur gefa kost á sér í formannssætið í næstu kosningum sem fram fara í mars á næsta ári. Hún væri enn að jafna sig á atburðum síðustu daga.

Þá sagðist Sólveig telja að hennar mistök hefðu verið að halda áfram að vera hún sjálf, fremur alþýðleg í háttum, eftir að hún tók við formannssætinu. Það hafi gert það að verkum að fólk hafi ekki séð ástæðu fyrir því að sýna henni þá virðingu sem fólki í svipuðum stöðum er sýnd.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert