Um 10% hafa ekki þegið bólusetningu

Frá bólusetningu gegn Covid-19 í Laugardalshöll.
Frá bólusetningu gegn Covid-19 í Laugardalshöll. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Um það bil 90% þeirra sem hafa náð bólusetningaraldri, þ.e. 12 árum, hafa fengið fulla eða hálfa bólusetningu gegn Covid-19. Um 10% hópsins hafa því ekki þegið einn einasta skammt af bóluefni. Af öllum landsmönnum eru 76% fullbólusett en 89% af þeim sem hafa náð 12 ára aldri. Þá hafa 4.257 einstaklingar hafið bólusetningu, þ.e. fengið einn skammt af bóluefni en ekki fulla bólusetningu. 

Þetta kemur fram í tölum á Covid.is sem uppfærðar voru sl. fimmtudag. Í bólusetningarhópnum eru 314.044 einstaklingar, ef miðað er við tölur frá Hagstofunni sem gefnar voru út 1. janúar síðastliðinn. 

66.842 hafa fengið viðbótar eða örvunarskammt af bóluefni en slíkt stendur nú þegar til boða fyrir aldraða, fólk með undirliggjandi sjúkdóma og framlínustarfsfólk. Bráðlega mun örvunarskammtur bjóðast öllum Íslendingum sem náð hafa 16 ára aldri.

80.000 fá boð í örvun í desember

Rúmlega 46.000 manns fá boð í örvunarbólusetningu í nóvember, 80.000 í desember, tæplega 30.000 í janúar, 37.500 í febrúar og ívið færri í mánuðunum þar á eftir, samkvæmt áætlun á Covid.is.

Bólusetning hefur ekki reynst eins vel og vonir stóðu til um í upphafi en fjöldi bólusettra hefur smitast af kórónuveirunni. Samt sem áður er bólusetningin sögð vernda fólk vel gegn alvarlegum veikindum Covid-19. Þá sagði sóttvarnalæknir í samtali við Morgunblaðið í vikunni að bólusetning sé „svona 50% virk við að koma í veg fyr­ir smit“. 

Bólusetningarhlutfallið lægra í yngri aldurshópnum.

Hæst bólusetningarhlutfall er í hópi fólks 90 ára og eldra en 98,3% hópsins hafa fengið fullabólusetningu og 1,6% hópsins hafa fengið einn skammt af bóluefni. Staðan er svipuð í aldurshópum yfir 70 ára aldri en hlutfallið er eilítið lægra hjá þeim sem eru á aldrinum 60 til 69 ára. 

Enn eru 6,6% fólks í aldurshópnum 50 til 59 ára óbólusett og 9,3% í aldurshópnum 40 til 49 ára. 

Hlutfall óbólusettra er ívið hærra í yngri aldurshópum. Þannig er það 15,5% í aldurshópnum 30 til 39 ára og 14,29% í aldurshópnum 16 til 29 ára. 

Hæst er hlutfall óbólusettra í yngsta aldurshópnum, 12 til 15 ára, eða 28,4% en bólusetning hópsins hófst ekki fyrr en í haust. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert