26 fulltrúar Íslands á loftslagsráðstefnunni

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sótti ráðstefnuna í síðustu viku.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sótti ráðstefnuna í síðustu viku. AFP

Í formlegri sendinefnd Íslands, sem sækir loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna (COP26), sem stendur nú yfir í Glasgow, eru 26 einstaklingar.

Auk ráðherra og fulltrúa frá ráðuneytum eru í formlegu sendinefndinni fulltrúi Umhverfisstofnunar, Veðurstofunnar, Landgræðslunnar, Loftslagsráðs og Orkustofnunar. Þá styrkir umhverfis- og auðlindaráðuneytið fulltrúa frá Landssambandi ungmennafélaga til þátttöku á fundunum, en þetta er í fyrsta skipti sem fulltrúi ungmenna er í opinberu sendinefndinni. Þetta kemur fram í skriflegu svari frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu.

Ráðstefnan hófst þann 31. október og stendur til 12. nóvember, en ekki eru allir fulltrúar Íslands þar á sama tíma.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra tók þátt í leiðtogaráðstefnu aðildarríkjaþings Loftslagsamningsins, sem haldin var í upphafi fundar og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðmála- og nýsköpunarráðherra, sótti einnig ráðstefnuna í síðustu viku. Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, sækir hins vegar ráðstefnuna í þessari viku.

Fyrir utan íslensku sendinefndina sækja einnig fundinn aðilar frá Reykjavíkurborg, umhverfisverndarsamtökum, lífeyrissjóðum, Grænvangi og ýmsum fyrirtækjum sem tengjast orkugeiranum, alls 59 manns.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert