Ágreiningur um starfsaldurslista

Þyrla Landhelgisgæslunnar.
Þyrla Landhelgisgæslunnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Félag íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA) hefur lýst yfir áhyggjum af stöðu flugmanna Landhelgisgæslunnar sem hafa verið án samnings í tvö ár eða frá áramótum 2019-2020.

Að sögn Sonju Bjarnadóttur, lögfræðings FÍA, stranda samningar ekki á kaupum og kjörum heldur á flugöryggi; að samninganefnd ríkisins vilji afnema starfsaldurslista – „sem er eitt rótgrónasta úrræði flugrekenda og flugmanna til að tryggja flugöryggi og er ein af burðarsúlum heilbrigðrar öryggismenningar,“ segir Sonja í samtali við Morgunblaðið.

Starfsaldurslistar tryggja framgang flugmanna og starfsöryggi þeirra svo einungis öryggissjónarmið séu fyrir augum þegar teknar eru ákvarðanir um hvernig flugi skuli háttað.

Máli sínu til stuðnings bendir ríkið á gerðardóm sem felldur var varðandi kjarasamninga flugvirkja. Sonja bendir á að stéttirnar séu með öllu óskyldar og að starfsaldurslistar flugmanna byggi á öðrum forsendum en annarra stétta, það er að þeir byggi á forsendum flugöryggis.

„Með afnámi starfsaldurslista er flugöryggi beinlínis stefnt í hættu. Fátt er mikilvægara í björgunarflugi en sterk öryggismenning og starfsaldurslistar tryggja að flugmenn treysti sér til að taka erfiðar ákvarðanir á ögurstundum. Starfsaldurslisti ver flugmenn svo þeir geti tekið sjálfstæðar ákvarðanir út frá flugöryggi. Við hljótum öll að vera sammála um að flugöryggi er aldrei mikilvægara en þegar kemur að flugmönnum Landhelgisgæslunnar sem fljúga í aðstæðum sem enginn annar flýgur í, leggja líf sitt í hættu við björgunaraðgerðir á landi og sjó,“ segir Sonja.

Þá segir hún að flugmenn og flugfélög um allan heim viðurkenni starfsaldurslista sem eitt mikilvægasta atriðið til að tryggja flugöryggi. Þeir halda utan um flugmanninn við erfiðar ákvarðanir og tryggja að sanngirnismenning (e. just culture) sé viðhöfð – en hún er fest í lögum hér á landi sem og víðar. Þannig er tryggt að flugmenn geti til dæmis tilkynnt um atvik, svo hægt sé að læra af þeim eða lagfæra, án ótta við refsingu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert