Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir, settur forstjóri Landspítala, segir álagið á spítalanum nokkuð stöðugt og að bráðamóttakan hafi komið þokkalega undan helginni miðað við ástandið fyrri helgar. Spítalinn var settur á hættustig á föstudag.
Í gær greindust 117 smit innanlands. 17 sjúklingar liggja inni á spítala með Covid-19, þar af fjórir á gjörgæslu og tveir í öndunarvél. Þá eru tæplega 1.200 manns á Covid-göngudeildinni og 36 undir sérstöku eftirliti.
„Álagið er svipað. Það er verið að keyra spítalann á hættustigi. Við fundum, farsóttarnefnd og viðbragðsstjórnun, reglulega. Síðast funduðum við í hádeginu og ákváðum að leggja allt kapp á það að reyna að halda úti eins mikilli starfsemi og hægt er. Við þurfum að spila það eftir eyranu,“ segir Guðlaug Rakel.
Guðlaug Rakel tók við embætti forstjóra Landspítalans tímabundið í kjölfar þess að Páll Matthíasson óskaði þess að láta af störfum.
Á miðnætti í kvöld rennur út fresturinn að sækja um stöðu forstjóra. Aðspurð kveðst Guðlaug Rakel ekki vilja tjá sig um hvort hún hefði skilað inn umsókn. Vill hún frekar bíða þar til fresturinn rennur út áður en þeirri spurningu er svarað.