Ekki búin að drepa Eddu

Bækur Jónínu Leósdóttur um Eddu á Birkimelnum hafa notið hylli, en nú er Edda komin í hvíld og við tekur ný glæpasagnaröð Jónínu um Soffíu og Adam.

Jónína Leósdóttir, blaðamaður, ritstjóri, þýðandi og rithöfundur, hefur skrifað nítján bækur ólíkrar gerðar frá því hún fór að skrifa ævisögur og skáldverk. Hún byrjaði á ævisögum, síðan unglingabókum og svo skáldsögum fyrir fullorðna, Allt fínt … en þú? kom út 2010, Upp á líf og dauða 2011 og Bara ef … 2014. Tveimur árum síðar sneri Jónína að glæpasöguskrifum, bókum um Eddu á Birkimelnum sem flækist inn í ýmis glæpamál. Fyrsta Eddubókin, Konan í blokkinni, kom út 2016, Stúlkan sem enginn saknaði 2017, Óvelkomni maðurinn 2018, Barnið sem hrópaði í hljóði 2019 og Andlitslausa konan 2020.

Bækurnar um Eddu, indæla en líka óþolandi afskiptasama konu úr Vesturbænum, komu jafnan út í byrjun árs, en bar svo við að þetta árið kom ekki út Eddubók, heldur bókin Launsátur þar sem þau eru í aðalhlutverki rannsóknarlögreglumaðurinn Soffía og sálfræðingurinn Adam. Ýmsir tóku því Edduskortinum illa og og Jónína segir að ókunnugt fólk spyrji hana mjög oft um örlög Eddu.

Eddublækurnar voru glæpasögur, eins og getið er, en þær snerust þó um meira en glæpi og tóku oft á veigamiklum spurningum og vandamálið sem fólk getur staðið frammi fyrir í lífinu, eins og Jónína lýsir því. „Fyrst kemur upp hugmynd að einhverju sem fólk glímir við, vinnumansal, eltihrellir, transbörn eða álíka og síðan fer ég að velta fyrir mér hvað get ég látið gerast sem glæp til að koma þessu að sem mig langar til að skrifa um. Það er ekki það að ég hugsi hvað það væri hægt að stinga mann í þessu sundi, eða henda út af þessum svölum.

Grunnpersónan í þessum fimm bókum, fyrstu glæpasögum mínum, er svo mikill happafengur af því að mér finnst svo gaman að vinna með henni, hún er vinnufélagi minn, hún er kannski manneskja sem mig lagar til að vera en er aldrei, kjaftfor og hugsar hratt, svarar fyrir sig og lætur ekki vaða yfir sig — ég myndi gjarnar vilja vera þannig.“

Hugmyndirnar að bókunum segir Jónína að komi oft úr að einhver segi henni sögu eða hún heyri fólk vera að tala um eitthvað í heita pottinum. „Ég notast auðvitað við ýmislegt sem kannski gerðist eða ég heyrði af fyrir löngu síðan, en svo allt í einu passar það núna inn í bók sem verið er að smíða.“

Eddubækurnar eru fimm, en í viðtali þegar fyrsta bókin kom út sagðist Jónína upphaflega aðeins hafa ætlað sér að skrifa bara eina bók um Eddu, en þegar hún var komin út fannst henni að þær yrðu að minnsta kosti þrjár. Þegar fjórða bókin kom út sagði hún aftur á móti að bækurnar yrðu að minnsta kosti fimm. Hvort þær verði fleiri en fimm er ekki ljóst. „Ég var svo hrædd um að fólk fái leið á Eddu, en ég held að ég myndi ekki fá leið á að skrifa um hana, þó það sé ágætt að fá smá hlé. Ég hugsaði að fólk myndi segja: enn ein tuggan, er kerlingin enn í sömu sporum. Ég held þannig að það sé ágætt fyrir mig og lesendur að taka smá hlé. Ég er þó ekki búin að drepa hana.“

Jónína segir frá Eddu og rithöundastarfi sínu almennt í spjalli í Dagmáli:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert