Heildarfarþegafjöldi Icelandair í innanlands- og millilandaflugi á árinu er nú kominn yfir 1,1 milljón. Heildarfjöldi farþega í innanlands- og millilandaflugi í október síðastliðnum var um 206.000, samanborið við um 14.000 farþega í október 2020 og um 365.000 í október 2019, síðasta heila rekstrarár fyrir heimsfaraldurinn.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu. Þar kemur einnig fram að framboð í októbermánuði var um 65% af framboði sama mánaðar ársins 2019 og var farþegafjöldi um 56% af fjöldanum í október 2019. Þetta er meðal þess sem kemur fram í mánaðarlegum flutningatölum fyrir októbermánuð sem Icelandair Group birti í Kauphöll í dag.
Farþegar í millilandaflugi voru um 181.000 í liðnum mánuði samanborið við um 7.500 í október 2020. Farþegar til Íslands voru um 105.000 og farþegar frá landinu voru um 33.000. Tengifarþegar voru um 43.000. Stundvísi í millilandaflugi var 84%.
Sætanýting í millilandaflugi var 69%, samanborið við 36% í október 2020 og 85% í október 2019. Sætanýting í Evrópuflugi var hins vegar 78% í októbermánuði og er því orðin svipuð og fyrir heimsfaraldur. Minni sætanýting í flugi til Norður-Ameríku skýrist helst af því að bandarísk landamæri hafa verið lokuð evrópskum ferðamönnum.
Farþegar í innanlandsflugi voru rúmlega 25.000, samanborið við um 7.000 í október 2020 og 24.000 í október 2019. Farþegafjöldi í innanlandsflugi er þannig orðinn sambærilegur við það sem hann var fyrir faraldur. Það sem af er ári hafa 70% fleiri farþegar flogið innanlands en á sama tímabili árið 2020.
Fjöldi seldra blokktíma jókst um 98% frá október 2020. Fraktflutningar jukust um 29% á milli ára og hafa það sem af er ári aukist um 24% miðað við sama tíma í fyrra.
„Starfsfólk Icelandair Group hefur með samstilltu átaki náð eftirtektarverðum árangri í að byggja félagið upp aftur eftir að heimsfaraldurinn skall á og fjölga tengingum Íslands við umheiminn jafnt og þétt á ný,“ er haft eftir Boga Nils Bogasyni, forstjóra Icelandair í tilkynningunni.
Hann segir daginn í dag marka mikilvæg tímamót þar sem Bandaríkin hafa opnað landamærin sín fyrir bólusettum ferðamönnum frá Evrópu. Með þessari breytingu verði á ný opið á milli allra markaðssvæða Icelandair í fyrsta sinn síðan ferðatakmarkanir hófust í mars 2019.