Frestur til þess að greiða atkvæði í formannskjöri Kennarasambands Íslands hefur verið framlengdur um sólarhring. Þetta kemur fram á vefsíðu sambandsins.
Bilanir höfðu komið upp á innri vef sambandsins, svokölluðum „mínum síðum“, þar sem greiða átti atkvæði í dag sem átti að verða síðasti dagur formannskjörsins.
Því ákvað kjörstjórn að framlengja frest til þess að greiða atkvæði um sólarhring og rennur hann nú út klukkan 14 á morgun.
Kjörsókn var orðin 48,45 prósent í hádeginu í dag.
Fjórir hafa boðið sig fram til þess að gegna embætti formanns Kennarasambandsins: Anna María Gunnarsdóttir, varaformaður KÍ, Hanna Björg Vilhjálmsdóttir, kennari í Borgarholtsskóla, Heimir Eyvindsson, dönskukennari og deildarstjóri í Grunnskólanum í Hveragerði, og Magnús Þór Jónsson, skólastjóri í Seljaskóla.