Fyrrverandi sendiherra Bandaríkjanna sakaður um ógnarstjórn

Jeffrey Ross Gunter, fyrrverandi sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi.
Jeffrey Ross Gunter, fyrrverandi sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi. mbl.is/Sigurður Bogi

Starfsmenn bandaríska sendiráðsins á Íslandi eru brenndir eftir ógnarstjórn Jef­frey Ross Gun­ter, fyrrverandi sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi. Þetta kemur fram í nýútgefinni skýrslu innra eftirlits bandaríska utanríkisráðuneytisins.

Í skýrslunni segir að starfsmenn sendiráðsins hafi ítrekað tilkynnt Gunter til innra eftirlitsins vegna hótana hans um að lögsækja hvern þann sem var honum ósammála, virti ekki óskir hans eða virtist honum ótrúr. Þá hafi Gunter einnig átt að hafa hótað hefndum gegn þeim starfsmönnum sem áttu samskipti við embættismenn ráðuneytisins í Washington á meðan þeir gegndu opinberum skyldum sínum í stjórnartíð hans.

Einnig er greint frá því að samband sendiráðsins við íslensku ríkisstjórnina hafi versnað til muna í stjórnartíð Gunters. Raunar orðið svo slæmt að þáverandi undirráðherra utanríkisráðuneytisins í pólitískum efnum hafi falið skrifstofu Evrópu og Evrasíu í ráðuneytinu að vinna beint með íslenska utanríkisráðuneytinu til að tryggja rétta milligöngu stjórnsýslnanna tveggja.

Var það gert til að reyna draga úr neikvæðum afleiðingum þess að Gunter virti oft ekki diplómatískar siðareglur eða neitaði að hafa samráð við íslensk stjórnvöld um stefnumótanir og fréttayfirlýsingar um viðkvæm efni tengd varnarmálum.

Þá er Gunter sagður hafa ráðið fulltrúum sendiráðsins frá því að vera í samskiptum við íslenska embættismenn og krafist þess að fara persónulega yfir öll þau samskipti sem færu þeirra á milli.

Loks á Gunter að hafa vanrækt mikilvæg verkefni sendiráðsins í stjórnartíð sinni á borð við að láta framkvæma öryggismat á 11 af 15 leiguhúsum sendiráðsins með tilliti til jarðhræringa og skyndihjálparþjálfun starfsmanna.

Skýrsluna má lesa á stateoig.gov.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert