Umsókn um útgáfu fullnaðarskírteinis til ökuréttinda er nú orðið stafrænt og bætist þar með við að áður var hægt að fá rafrænt ökuskírteini. Á þetta að spara spor umsækjenda með gögn á milli stofnanda og frá ökukennara til hins opinbera.
Fyrr á árinu var greint frá því að ferlið allt ætti að verða stafrænt fyrir lok árs. Tekur það til umsókna, ökunámsbóka, upplýsingagáttar fyrir nemendur og ökukennara, ökuskóla, prófa og útgáfu ökuskírteina.
Með þessari breytingu geta ökukennarar skráð sig inn á island.is og staðfest að ökunemar hafa lokið akstursmati. Í framhaldinu getur ökunemi sótt um fullnaðarskírteini og ef ekki þarf að skila frekari gögnum er hægt að sækja skírteinið eftir þrjár vikur.
Í stafræna ferlinu eru persónuupplýsingar sóttar úr Þjóðskrá og ökuskírteinaskrá. Ef umsækjendur kjósa aðra mynd en þá sem er til í gagnagrunni eða þurfa að skila inn læknisvottorði þarf að skila þeim gögnum inn til sýslumanns áður en skírteinið er pantað.
Þegar verkefnið um að gera allt ökunám stafrænt var því skipt í þrjá áfanga. Umsóknin var fyrsti áfangi, en í öðrum áfanga verður rafræn ökunámsbók og tenging hennar við ökunema, ökukennara, ökuskóla og alla þá aðila sem tengjast þessum miðpunkti ökunámsins.
Þriðji og síðasti áfanginn felst í að gera ferlið í kringum próftöku og útgáfu skírteina stafrænt ásamt allri umsýslu í kringum það.