Hæfilega bjartsýnn á sóttvarnaaðgerðirnar

Magnús Gottfreðsson, pró­fess­or í smit­sjúk­dóm­um og yf­ir­lækn­ir á Land­spít­ala.
Magnús Gottfreðsson, pró­fess­or í smit­sjúk­dóm­um og yf­ir­lækn­ir á Land­spít­ala. Ljósmynd/Kristinn Ingvarsson

Magnús Gottfreðsson, pró­fess­or í smit­sjúk­dóm­um og yf­ir­lækn­ir á Land­spít­ala, kveðst hæfilega bjartsýnn á að þær sóttvarnaaðgerðir sem kynntar voru á föstudaginn munu létta undir álaginu á spítalanum. Hann segir aðgerðirnar vægar í heildarsamhenginu en að góð mæting í bólusetningar og aukin grímunotkun muni vonandi hafa jákvæð áhrif.

Á föstudag kynnti Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra nýja reglugerð um hertar sóttvarnaaðgerðir. Strax á miðnætti tók í gildi grímuskylda og næstkomandi miðvikudag munu fjöldatakmörk færast úr tvö þúsund niður í 500 manns en heimilt verður að skipuleggja 1.500 manna viðburðir með notkun hraðprófa. Þá verður opnunartími veitingahúsa og skemmtistaða styttur um tvo klukkutíma.

„Ég held að þetta muni breyta frekar litlu á næstu dögum. Það tekur eins og við vitum alltaf smá tíma fyrir aðgerðir að hafa áhrif og þetta eru mjög vægar aðgerðir sem verið er að grípa til. Þannig að það veltur fyrst og fremst á því hvort fólk fari eftir þessu eða ekki.

Reynslan er að kenna okkur að þegar fólk sér að hlutirnir eru ekki á réttri leið, þá eykst klárlega eftirfylgni og fólk verður varara um sig og er betur meðvitað. Ég vona að þetta muni skila árangri en þetta mun alltaf taka einhvern tíma,“ segir Magnús í samtali við mbl.is.

Verðum að fara milliveginn

Í minnisblaði Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis segir hann að halda verði fjölda daglegra smita í 40 til 50 til að heilbrigðiskerfið ráði við álagið. Væri það æskilegt þar til samfélagslegt ónæmi næst, hvort sem það væri þá með bólusetningum eða öðrum hætti.

Spurður hvort hann telji raunhæft að halda slíkum smitfjölda stöðugum, segir Magnús það hægt en að auðvelt sé að missa tökin á því.

„Þetta er mjög kvikt fyrirbæri þessi veira. En við verðum að muna að það erum við sem breiðum hana út með okkar atferli. Við tölum gjarnan um veiruna sem ólíkindatól en ólíkindatólin eru náttúrulega mennirnir sem að bera veiruna á milli.“

Telur hann skynsamlegra að við temjum okkur aðgæslu til lengri tíma frekar en að líta á sóttvarnaaðgerðir sem stöðugt átaksverkefni sem við einhendum okkur í. „Við verðum að finna milliveginn í þessu.“

Hjarðónæmi með náttúrulegri sýkingu óvænlegur kostur

Magnús segir líklegt að við náum að draga úr skaða veirunnar með margvíslegum hætti. Nefnir hann þá m.a. bólusetningar, persónubundnar sóttvarnir og önnur viðbótar úrræði á borð við nýju veirulyfin sem eru að koma fram á sjónarsviðið.

„Þetta eru allt tæki í verkfærakistunni sem gefa okkur tækifæri til að draga úr áhrifum faraldursins á samfélagið í heild sinni. Þetta er auðvitað allt saman gríðarlega mikilvægar viðbætur miðað við stöðuna sem við vorum í fyrir ári síðan þegar við höfðum afskaplega lítið í höndunum. Ég veit að sumum finnst eins og við séum komin í sama farið en ég held að það sé alls ekki þannig.“

Spurður hvort að hjarðónæmi með smitum sé raunhæfur möguleiki, segir hann það ekki vænlegan kost. „Við vitum að náttúruleg sýking sem grundvöllur hjarðónæmis myndi hafa í för með sér meiri veikindi og líka meiri hættu á langtíma fylgikvillum. Ég held að engum hugnist sú tillaga að láta bara veiruna gossa og sjá hvað setur. Það yrði held ég miklu lakari niðurstaða fyrir heildina heldur en að reyna að ná smá stjórn á atburðarásinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert