„Nú er mikið um umgangspestir og álagið því töluvert,“ segir Theódór Skúli Sigurðsson, sérfræðingur á svæfinga- og gjörgæsludeild Landspítalans. „Mikið mæðir á starfsfólki og vegna álags verða áhrifin á sjúkrahúsinu keðjuverkandi. Daglega er stærri aðgerðum á borð við hjartaaðgerðir frestað þar sem slíkar aðgerðir krefjast gjörgæsluvistunar um stund. Allt helst í hendur. Þá er stór áskorun hjá okkur að missa ekki starfsfólk í veikindi eða sóttkví vegna Covid.“
Á næsta misserinu verða sex hágæslupláss tekin í notkun á Landspítala. Tvö verða á sjúkrahúsinu við Hringbraut og opnuð í desember. Önnur tvö verða í Fossvogi og komast í gagnið í janúar. Viðbótin kemur svo með vorinu. Hágæslan verður rekin í tengslum við eða af gjörgæsludeildunum og verður, að sögn Theódórs Skúla, viðbót við starfsemi þeirra. Mun meðal annars létta á álagstoppum sem fylgja bylgjum Covid.
Kórónuveirufaraldurinn mallar nú sem aldrei fyrr. Alls 90 smit greindust á landinu síðastliðinn laugardag, en 167 smit á fimmtudag. Þá greindust 144 smit á miðvikudag. Þetta er með hæstu tölum sem sést hafa, en á móti kemur að bólusetning mildar yfirleitt veikindi fólks. Eigi að síður gildir sú þumaputtaregla að af þeim sem veikjast þurfi 2% að leggjast inn á sjúkrahús og hluti þeirra endar á gjörgæsludeild.
„Hágæslurýmin eru ljós í myrkrinu. Það sem heldur okkur gangandi er loforðið um fjármagn til að ráða inn fólk og þjálfa. Á Landspítalanum þarf að minnsta kosti 16 gjörgæslupláss að staðaldri, en sex hágæslurými fara langt í að létta af okkur þessu stöðuga álagi, þannig að ekki þurfi að sífellt að fresta skurðaðgerðum sem hafa verið komnar á dagskrá.“