Heil vakt lögregluþjóna á Sauðárkróki, er í sóttkví eftir að einn mætti smitaður af Covid-19 í vinnuna. Alls eru lögregluþjónarnir fjórir.
Þetta staðfestir Birgir Jónasson, lögreglustjóri á Norðurlandi vestra, í samtali við mbl.is.
„Þetta veltur á niðurstöðum skimunar, við erum að tala um lok vikunnar vonandi,“ segir Birgir, spurður hvenær von sé á þeim sem eru í sóttkví aftur í vinnu.
Spurður hvort að þurft hafi að kalla til mannskap annars staðar að segir Birgir að mönnun sé leyst innan embættis.
„Þetta er ekki stórmál en auðvitað má ekki mikið út af bregða,“ segir hann. „Þetta er auðvitað alltaf áfall þegar svona kemur upp á litlum vinnustað. Ég vona bara að allir nái heilsu. Auðvitað er þetta talsverð röskun – ég neita því ekki en þetta er hluti af því að takast á við heimsfaraldurinn.“