Herbergin af skornum skammti

120 gestir dvelja nú á farsóttarhúsum, þar af 100 í …
120 gestir dvelja nú á farsóttarhúsum, þar af 100 í einangrun. mbl.is/Sigurður Unnar Ragnarsson

Pláss í farsóttarhúsum á höfuðborgarsvæðinu eru nú af skornum skammti og einungis eitt herbergi er laust á Akureyri, að sögn Gylfa Þórs Þorsteinssonar, forstöðumanns sóttvarnahúsa.

Um 120 gestir dvelja nú á farsóttarhúsum, þar af eru um 100 í einangrun. Þá hafa einhverjir foreldrar fylgt sýktum börnum sínum þangað og eru nú í sóttkví.

Getið þið tekið á móti mörgum í viðbót?

„Það er orðið ansi þröngt hjá okkur en við eigum von á að einhverjir fleiri fái jafnvel að fara í dag þannig við vonumst til þess að eiga pláss í dag og á morgun. Svo fer það bara eftir því hversu háar smittölurnar verða í dag og næstu daga hvort húsin springa eða ekki,“ svarar Gylfi. 

Hann bætir þó við að rekstur hafi gengið ljómandi vel og að starfsfólk sé hörku duglegt og standi sig með sóma.

Erfitt að bæta við herbergjum

Spurður hvort að búast megi við að farsóttarhúsum verði fjölgað á næstu dögum, segir Gylfi það ekki hafa verið rætt. 

„Það er náttúrulega bara heilbrigðisráðuneytið og Sjúkratryggingar Íslands sem taka ákvörðun um það en það er náttúrulega orðið ansi erfitt að finna hótel þessa dagana. Þau eru flest í rekstri. Það var annað þegar hér var allt lokað. Ég veit yfirhöfuð ekki hvort það muni ganga upp að finna önnur hótel.“

Segir hann þá að erfitt sé að finna önnur húsnæði en hótel til að sinna þessari starfsemi. Þurfi meðal annars að vera klósett á hverju herbergi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert