Kristján Þór Magnússon, sveitarstjóri í Norðurþingi, verður í það minnsta í þrjár vikur til viðbótar frá störfum sem sveitarstjórnarmaður og sveitarstjóri vegna veikinda.
Tölvupóstur þess efnis var sendur á alla starfsmenn sveitarfélagsins í dag.
Kristján hefur verið í veikindaleyfi í þrjár eða fjórar vikur og til stóð að hann myndi snúa aftur til starfa í dag, að því er Drífa Valdimarsdóttir, fjármálastjóri og staðgengill sveitarstjóra, sagði í samtali við mbl.is fyrir helgi.
Drífa sagði sömuleiðis að veikindi Kristján hefði borið brátt að.
Í samtali við mbl.is í dag segir Drífa að áframhaldandi veikindi Kristjáns hafi orðið ljós um helgina. Yfir stendur vinna við fjármálaáætlunargerð sveitarfélagsins og hafði verið gert ráð fyrir Kristjáni í vikunni.
„Ég vonaði auðvitað að hann væri að koma aftur, ekki síst hans vegna. Að hann yrði nógu heilsuhraustur til þess, en það var ekki og þá endurskoðum við bara plön,“ sagði Drífa.
Aldey Unnar Traustadóttir, forseti sveitarstjórnar Norðurþings, neitaði að staðfesta hvort veikindaleyfið hefði verið framlengt eða tjá sig um málið þegar eftir því var leitað.