Otaði hnífi að öðrum nemanda í matsal Valhúsaskóla

Enginn slasaðist og málið er í ferli innan skólans að …
Enginn slasaðist og málið er í ferli innan skólans að sögn aðstoðarskólastjóra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Mikil geðshræring greip um sig í matsal Valhúsaskóla á Seltjarnarnesi í dag þegar nemandi við skólann greip hníf í matsalnum og otaði að öðrum eftir að kastast hafði í kekki á milli þeirra.

Þetta staðfestir Helga Kristín Gunnarsdóttir, aðstoðarskólastjóri Valhúsaskóla, í samtali við mbl.is. Í Valhúsaskóla eru nemendur frá sjöunda og upp í tíunda bekk.

Helga tekur fram að nemandinn hafi ekki verið með hnífinn á sér heldur hafi hann gripið til hnífs úr matsalnum.

Foreldar voru upplýstir um atvikið í bréfi frá skólanum nú fyrir stundu. Þar kemur fram að enginn hafi slasast og að málið sé í ferli. Helga vill ekki tjá sig um hvernig því ferli verður háttað. „Við vildum bara láta foreldra vita svo þetta færi ekki að blása út sem eitthvað allt annað en það var. Síðan er það okkar að taka á þessu máli hér innanhúss.“

Hún segir ekki hafa verið tekna ákvörðun um hvort börnin sem urðu vitni að atvikinu fái einhvers konar áfallahjálp. „Við erum ekki komin þangað. Ef við metum það svo að þess þurfi, þá verður það skoðað. Ég er þó ekki viss um að það komi til þess.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert