Kórónuveirusmit greindist hjá barni á leikskólanum Urðarhóli í Kópavogi og þurfa foreldrar barna á deildinni Skólatröð, börnin sjálf og starfsfólk að fara í sóttkví. Þetta staðfestir Sigríður Björg Tómasdóttir, almannatengill Kópavogsbæjar, í samtali við mbl.is.
Um þrjátíu börn á aldrinum 2-5 ára og minnst átta starfsmenn eru á deildinni sem hefur nú verið lokað á meðan smitrakningarteymið vinnur úr upplýsingum, að sögn Sigríðar.
Samkvæmt upplýsingum Sigríðar er þetta í annað sinn sem smit greinist á leikskólanum á stuttum tíma. Síðast hafi það verið starfsmaður í aðalhúsnæði leikskólans sem greindist smitaður og var tveimur deildum lokað í kjölfarið. Í því tilfelli hafi 25 börn og 15 starfsmenn verið sendir í sóttkví.
„Þeir sem voru útsettir fyrir því smiti eru á leið í seinni sýnatökuna á morgun. Deildirnar tvær í aðalhúsnæði Urðarhóls munu að öllum líkindum opna aftur á miðvikudagsmorguninn næstkomandi,“ segir hún að endingu.