Lögreglan á Suðurnesjum hefur til rannsóknar mál þar sem grunur leikur á að starfsmaður skóla í umdæminu hafi beitt barn ofbeldi.
Vísir.is greindi fyrst frá en Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, staðfestir þetta í samtali við mbl.is. Hann segist gera ráð fyrir því að rannsókn málsins ljúki fljótlega.
Samkvæmt heimildum Vísis er um að ræða Gerðaskóla í Garði, en Úlfar staðfestir það ekki. Þá mun móðir barnsins einnig hafa lagt fram kæru á hendur skólanum fyrir að hafa lokað níu ára dóttur hennar reglulega inni í litlu gluggalausu rými án hennar vilja og án vitneskju foreldra.
Atvikið sem um ræðir mun hafa átt sér stað í desember í fyrra, en haft er eftir móður stúlkunnar að hún hafi orðið vitni að því að starfsmaðurinn hafi gripið um hendur dóttur hennar, keyrt þær aftur fyrir bak, snúið hana niður með andlitið í gólfið og haldið henni þar í nokkurn tíma. Ástæðan hafi verið sú að stúlkan hafi klórað út í loftið í átt að starfsmanninum. Fram kemur að stúlkan sé greind með ADHD og depurð.
Stúlkan fór í skýrslutöku í Barnahúsi vegna málsins og þar sem hún sagðist margoft hafa verið beitt ofbeldi af starfsmönnum skólans. Jafnvel hafi verið tekið um hendur hennar og fætur hún dregin gegn vilja sínum inn í áðurnefnt rými.
Miðlæg rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu er með til rannsóknar sambærilegt mál, en þar var lögð fram kæra á hendur kennara og þremur starfsmönnum skóla á höfuðborgarsvæðinu fyrir að hafa lokað barn eitt inni.
Umboðsmaður Alþingis hefur óskað eftir upplýsingum frá fjórum sveitarfélögum og mennta- og menningarmálaráðuneytinu um aðskilnað barna frá samnemendum sínum og vistun í sérstökum rýmum í grunnskólum. Áður hafði verið óskað eftir slíkum upplýsingum frá sveitarfélögum á síðasta ári en málinu ekki fylgt eftir. Skúli Magnússon, umboðsmaður Alþingis, sagði í samtali við mbl.is að þær ábendingar sem borist hefðu núna væru fleiri og meira afgerandi en áður.
„Það að umboðsmaður bregðist við ábendingum foreldra með þessum hætti er til vitnis um að málið er tekið alvarlega og það er talin þörf á því að bregðast við,“ sagði Skúli.