„Það er geggjuð stemning“

Saga María Sæbergsdóttir samdi siguratriði Langholtsskóla á Skrekk í fyrra.
Saga María Sæbergsdóttir samdi siguratriði Langholtsskóla á Skrekk í fyrra. Ljósmynd/Aðsend

Allt nú er á suðupunkti í Borgarleikhúsinu þar sem lokaundirbúningur fyrir Skrekk, hæfileikakeppni grunnskólanna, stendur yfir. En átta skólar keppa til úrslita í kvöld.

„Það eru allir búnir að í hraðpróf í morgun og enginn reyndist smitaður, sem er geggjað. Kynnarnir okkar voru næstum því lentir í sóttkví þannig það hefur ekki verið mjög stabílt ástand um helgina en nú förum við að sigla lygnan sjó,“ segir Harpa Rut Hilmarsdóttir, verkefnastjóri með Skrekk, hlæjandi. 

Það er í mörg horn að líta við undirbúninginn og flækjustig vegna kórónuveirufaraldursins bætist við.

„Við erum að hlýða mjög ströngum sóttvarnareglum svo við fáum að halda þennan viðburð. Þetta er geggjaðasti viðburður ársins á Íslandi. Ég er ekki hlutlaus en þetta er svo magnað. Bæði það sem gerist á sviðinu og líka það sem gerist baksviðs. Þetta er svo fallegur dagur. Allir búnir að leggja hug og hjörtu í verkin sín. Þau eru búin að slípa saman frábæra hópa og eru mætt hérna til að hafa gaman og njóta hæfileika sinna.“

Styrkjandi bæði persónulega og félagslega

Stemningin í húsinu er því eðli málsins samkvæmt gríðarlega góð. „Það er geggjuð stemning. Þau eru að kenna hvert öðru dansa, upphitunarleiki og syngja saman. Það er magnað að vera hérna,“ segir Harpa þegar hún reynir að lýsa orkunni í kringum viðburðinn.

„Þau eru búin að setja allt í þetta og þetta er ekkert smá ferli. Þau eru náttúrulega að gera leikverk en þau eru líka að æfa söngva og á hljóðfæri. Þau er að gera búninga, hár, sviðsmynd og sminka. Hanna ljós og púsla saman tónlist. Þetta er svo rosalega margþætt. Það er verið að nýta svo fjölbreytta hæfileika og þau þurfa að slípa sig svo vel saman, hóparnir, til að þetta gangi upp.“

Átta skólar keppa til úrslita á Skrekk, hæfileikakeppni grunnskólanna, í …
Átta skólar keppa til úrslita á Skrekk, hæfileikakeppni grunnskólanna, í kvöld. mbl.is/Golli

Hún segir góða samvinnu lykilinn að árangri. Bestu atriðin séu þau þar sem allir noti hæfileika sína og vinni vel saman. „Þetta er svo styrkjandi persónulega fyrir hvern og einn og líka félagslega. Þess vegna er svo gaman að tala við fyrrverandi Skrekks þátttakendur. Það tala margir um þetta sé besta móment skólagöngunnar.“

Skiptir máli að tala frá hjartanu

Saga María Sæbergsdóttir samdi siguratriði Langholtsskóla á Skrekk fyrra. Hún tekur svo sannarlega undir orð Hörpu, en hana hafa hafði alltaf dreymt um að taka þátt í keppninni.

Saga eignaðist marga nýja vini í gegnum Skrekk og segir ótrúlega gaman að hafa fengið að vinna með og kynnast krökkum sem hún hefði kannski aldrei talað við annars.

Hún segir einlægni skipta miklu máli þegar svona atriði er samið. „Öll tíu árin sem ég var í grunnskóla var það draumur minn að taka þátt í Skrekk. En það skiptir máli að tala frá hjartanu og skapa frá hjartanu. Þegar þú tengir við það sem þú ert að segja þá verður það miklu einlægara og það skilar sér út í salinn.“

Þróaði með sér leiðtogahæfni

Saga segir sjálfan Skrekksdaginn auðvitað hafa verið ógleymanlegan, þegar hún stóð á sviðinu og uppskar árangur mikillar vinnu ásamt félögum sínum, en allt ferlið sjálft hafi líka mjög lærdómsríkt.

Keppninni var frestað í tvígang vegna kórónuveirufaraldursins og á tímabili hélt Saga jafnvel að hún myndi ekki fara fram. Undirbúningsferlið var því ekki tveir mánuðir eins og venjan er, heldur níu mánuðir. Henni þótti sigurinn enn verðskuldaðri fyrir vikið. „Sjálfur Skrekksdagurinn var ógleymanlegur en ég lærði líka þrautseigju og þróaði með mér góða leiðtogahæfni. Það er svo margt í þessu.“

Sýnt verður beint frá úrslitum Skrekks á RÚV í kvöld, en hér má nálgast upplýsingar um atriðin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert