Þóra Arnórs: „Gagnrýnin að mörgu leyti réttmæt“

Þóra Arnórsdóttir ritstjóri Kveiks var gestur í hlaðvarpinu Karlmennskan þar sem þau Þorsteinn V. Einarsson, þáttstjórnandi hlaðvarpsins ræddu um þátt Kveiks sem sýndur var í síðustu viku og fjallaði um leikarann Þóri Sæm og bar titilinn Hreinsunareldur Þóris Sæmundssonar.

Umfjöllun Kveiks hefur vakið gríðarlega athygli frá því að þátturinn var sýndur og fjölmargir gagnrýnt þáttinn á samfélagsmiðlum þar sem þolendur hafa meðal annars stigið fram og lýst því yfir hvernig þátturinn hafi verið eins og „hlandblaut tuska í andlitið á þolendum“.

Í hlaðvarpsþættinum ræða Þóra og Þorsteinn hver hugsun þáttarins hafi verið, hvort þátturinn hafi verið mistök og í raun virkað sem vopn í höndum þeirra sem tala niður þolendur og baráttufólk gegn ofbeldi og hvort að um fullnægjandi rannsóknarvinnu hafi verið ræða í aðdraganda þáttarins.

Bæði fengið þakkir og gagnrýni

Þóra segist bæði hafa fengið miklar þakkir fyrir að opna á erfiða umræðu en einni miklar skammir fyrir að hafa ekki tekið umræðuna lengra, fólk hafi meðal annars gagnrýnt að það væri ekki nægilega skýrt hvað umfjöllun þáttarins væri að segja.

„Það tökum við sannarlega til okkar og gagnrýnin að mörgu leyti réttmæt.“

Þóra segir markmið þáttarins hafa verið að opna á umræðuna um það hvenær fólk á borð við Þóri Sæm sem ekki hefur hlotið dóm en hefur „misstigið sig“, eins og kemur fram í skýringu þáttarins, á afturkvæmt í samfélagið.

„Ef hegðunin er ítrekuð þá skaparðu þér orðspor [...]síðan kemur þetta a yfirborðið og hvað svo?” spyr Þóra.

Spurð hvort hún sé ósammála Þorsteini um hvort að þátturinn hafi í raun fýrað upp í gerendameðvirkni og andstöðu við þær breytingar sem verið er að reyna að knýja á um segist Þóra vonast til þess að það verði ekki þannig og að fólk viti að það hafi ekki verið tilgangurinn með þættinum.

Hún segir það vera hlutverk Kveiks að þora að gera allskyns hluti, stinga á ýmsu og stíga inn í erfiða samfélags umræðu.

Augljóslega ekki búinn að sýna iðrun

„Finnst þér hann (Þórir Sæm) sýna iðrun, hafa axlað ábyrgð, vera trúverðugur og búinn að gera upp sín mál?“ Spyr Þorsteinn.

Hann bætir við að til að setja í samhengi hvers vegna hann spyr hana að þeirri spurningu hafi Þórir í þætti Kveiks kallað samfélagið „klikkað“ í samhengi um umræðuna um ofbeldi og eigin stöðu, hann segist vera „svo mikið fórnarlamb í málinu“, segir að sín stærstu mistök hafi verið að veita DV viðtal en ekki hans eigin hegðun.

„Nei hann er augljóslega ekki búinn að því,“ segir Þóra. „Þá geturu sagt bíddu varst þú bara að taka Þóri og henda honum fyrir strætó? Nei, ég var kannski ekki að gera það en hann að sjálfsögðu vissi hvað þetta hefði í för með sér.“

„Hver er ábyrgð ríkismiðils?“

Þorsteinn vísar í orð Önnu Marsibil Clausen, fréttamanns á Rúv, þar sem hún skrifaði pistil um breska ríkismiðilinn BBC, sem hefur sætt harðri gagnrýni síðustu vikur fyrir einhliða umfjöllun gegn undirokuðum hópi.

„Ég ætla að nota orð Önnu úr lestinni á fimmtudaginn, sem var að fjalla um algjörlega ótengt mál, en hún spurði þar og ég spyr þig, hver er ábyrgð ríkismiðils á einhliða illa ígrundaðri og meingallaðri umfjöllun sem málar hóp þolenda sem gerendur, afþví að það einhvernveginn var þráðurinn og í rauninni afleiðingin á þættinum,“ spyr Þorsteinn.

„Ég get bara sagt að það þykir mér mjög leiðinlegt og það þýðir að við höfum ekki komið nógu vel til skila því sem við erum að segja. Viðmælandinn verður svolítið að taka ábyrgð á sinni hegðun,“ svarar Þóra.

Hún segir að í næsta þætti af Kveik mun umfjöllun um málið halda áfram.

View this post on Instagram

A post shared by karlmennskan (@karlmennskan)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert