Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt karlmann í 18 mánaða fangelsi fyrir húsbrot og nauðgun, en maðurinn fór í heimildarleysi inn á heimili konu í apríl 2018 og hafði þar við hana kynferðismök án hennar samþykkis. Maðurinn var jafnframt dæmdur til að greiða konunni tvær milljónir kr. í miskabætur.
Héraðssaksóknari gaf út ákæru á hendur manninum í janúar sl.
Fram kemur í dómi héraðsdóms að maðurinn hafi neitað sök í skýrslutökum hjá lögreglu. Hann kvaðst hafa verið mjög drukkinn og kvaðst upphaflega ekki muna hvort hann hefði komið inn til konunnar um miðja nótt. Síðar, við skýrslutöku hjá lögreglu, sagði maðurinn að hann hefði iðulega verið heima hjá konunni dauðadrukkinn. Við spilun á upptöku úr síma konunnar sagði maðurinn einnig að það gæti vel verið að það væri rödd hans sem heyrðist á upptökunni, sem var tekin upp umrædda nótt. Hann væri bara ekki öruggur á því.
Héraðsdómur taldi því að framburður mannsins um atburði næturinnar væri ótrúverðugur og því var hann ekki lagður til grundvallar niðurstöðunni.
Aftur á móti var tekið fram að konan hefði borið um atvik efnislega á sama veg frá upphafi. Hún kvaðst hafa tekið svefnlyf og verið sofnuð á heimili sínu þegar maðurinn kom þar óboðinn inn. Hún hefði síðan vaknað þegar maðurinn var að brjóta á henni.
Héraðsdómur segir einnig, að þótt maðurinn og konan séu aðeins tvö til frásagnar um það sem gerðist þá fái vitnisburður konunnar stoð í vitnisburði geðlæknis, sálfræðings og sérfræðings í klínískri sálfræði, sem allir lýstu sambandi milli atburðarins sem greinir frá í ákæru og líðan konunnar. Vitnisburður konunnar fái einnig stuðning í vitnisburði hjúkrunarfræðings, sóknarprests og lögreglumanns. Enn fremur fái vitnisburður konunnar stoð í upptöku sem hún kvaðst hafa tekið upp um nóttina þegar maðurinn var inni í íbúðinni.
Það er því mat dómsins að vitnisburður konunnar sé trúverðug og fái þann stuðning sem þarf til að unnt sé að leggja hann til grundvallar niðurstöðunni og var maðurinn sakfelldur fyrir athæfið.
Fram kemur í dómi héraðsdóms, að maðurinn hafi árið 2006 verið dæmdur í fangelsi fyrir tilraun til manndráps og árið 2013 gekkst hann undir viðurlagaákvörðun fyrir umferðarlagabrot.
Þá segir að liðin séu meira en þrjú og hálft ár frá því maðurinn framdi brotin og að hann verði ekki sakaður um dráttinn sem hafi orðið á málinu. Við ákvörðun refsingar var því að nokkru litið til tafa á málinu en sökum alvarleika þess þótti hvorki fært að skilorðsbinda refsinguna í heild ná að hluta. Hann var því dæmdur í 18 mánaða fangelsi og gert að greiða tvær milljónir kr. í miskabætur.