Annar ökumaðurinn sem lenti í bílslysi á Moldhaugnahálsi í Eyjafirði rétt fyrir klukkan eitt í gær er töluvert slasaður. Þetta segir Arnfríður Gígja Arngrímsdóttir, aðstoðaryfirlögregluþjónn á Norðurlandi eystra, í samtali við mbl.is.
Þrennt var í bifreiðunum tveimur, einn ökumaður í annarri bifreiðinni og ökumaður og farþegi í hinni. Voru þau öll flutt á sjúkrahúsið á Akureyri, að því er greint frá í tilkynningu lögreglunnar á Norðurlandi eystra.
Ekki er hægt að segja neitt um tildrög slyssins á þessari stundu enda málið enn í rannsókn, segir Arnfríður innt eftir því.
„Ég get aðeins veitt þær upplýsingar að það urðu töluverð slys á fólki, sérstaklega á öðrum ökumanninum.“
Frekari upplýsingar um líðan fólksins liggi ekki fyrir, að sögn hennar.