Farin verður önnur vettvangsferð í Borgarnes

Birgir segir að gagnaöflun nefndarinnar sé langt komin en að …
Birgir segir að gagnaöflun nefndarinnar sé langt komin en að enn séu einhver atriði sem eiga eftir að skýrast í þeim efnum. mbl.is/Unnur Karen

Und­ir­bún­ings­nefnd fyr­ir rann­sókn kjör­bréfa hyggst fara í aðra vettvangsferð í Borgarnes. Þetta staðfestir Birgir Ármannsson, formaður nefndarinnar, í samtali við mbl.is.

„Við höfum rætt það í nefndinni að fara í aðra vettvangsferð í Borgarnes til að fara yfir kjörgögnin sem að eru varðveitt þar. Við höfum nú í tvígang áður farið að skoða tiltekna þætti í því sambandi og þetta er til viðbótar við það,“ segir hann.

Hann segir að ekki liggi fyrir hvenær nefndin muni fara í vettvangsferðina en það verði á næstu dögum.

„Í störfum nefndarinnar vakna allskonar spurningar og í sumum tilvikum þá getum við tékkað það af með því að kanna gögnin og þá gerum við það.

Svo vitum við ekki fyrr en að öll kurl eru komin til grafar hvaða atriði það eru sem á endanum skipta mestu máli við matið, en við þurfum hinsvegnar að hnýta þá lausu enda sem við getum.“

Nefndin sé ennþá í miðju kafi

Birgir segir að gagnaöflun nefndarinnar sé langt komin en að enn séu einhver atriði sem eiga eftir að skýrast í þeim efnum.

„Allt mjakast þetta, við erum auðvitað í miðju kafi ennþá. Málsatvikalýsing ein og hún stendur núna var birt á vefnum í gær á vef nefndarinnar hjá Alþingi.

Við erum að birta þetta þó að skjalinu sé ekki full lokið til þess að gefa þeim sem vilja gefa athugasemdir við einstök atriði varðandi málavaxtalýsinguna tækifæri til þess að koma á framfæri athugasemdum,“ segir Birgir.

Hann segir að þegar að athugasemdir eru komnar fari nefndin í að fullklára þann hluta í starfinu og síðan taki vð ákveðin vinna sem felist í umræðu um þá matskenndarþætti í sambandi við málið, bæði hvað varðast málsatvik og lagaleg sjónarmið.

„Við gerum ráð fyrir því að funda á hverjum degi næstu daga.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert