Ekki hefur náðst í nýja forystu Eflingar frá því tilkynnt var að Agnieszka Ewa Ziólkowska, hefði tekið við sem formaður félagsins og Ólöf Helga Adolfsdóttir skipaður nýr varaformaður.
Þá hefur aðstoðarframkvæmdastjóri félagsins, Ragnar Ólason, sagst ekki ætla að veita viðtal að sinni. Hann reyndi jafnframt að stoppa blaðamenn og ljósmyndara af í húsakynnum Eflingar þegar stjórnin fundaði þar í síðustu viku.
Fjölmiðlar voru þá ítrekað beðnir um að yfirgefa bygginguna á meðan þeir biðu fregna af fundinum og meðal annars kom til tals að kalla til lögreglu. Síðan þá hefur forystan ekki látið heyra frá sér eða svarað símtölum frá blaðamönnum mbl.is.
Ekki hefur því fengist tækifæri til að spyrja neinna spurninga. Meðal annars hvort sátt ríki á milli starfsfólks á skrifstofu og stjórnar félagsins, eða hvort utanaðkomandi aðstoðar sé þörf til að bæta líðan fólks á vinnustaðnum.
Fram kom í ályktun sem trúnaðarmenn starfsfólks Eflingar afhentu stjórnendum í júní að starfsfólk upplifði vanlíðan og óöryggi vegna framkomu Sólveigar Önnu Jónsdóttur, fyrrverandi formanns.
Í kjölfar afsagnar hennar sem formanns gaf stjórnin það ítrekað út að hún styddi allar ákvarðanir Sólveigar.
Sólveig hefur gagnrýnt starfsfólk skrifstofunnar harðlega, bæði í viðtölum og í færslum á Facebook-síðu sinni, og sagt það hafa hrakið sig úr starfi. Hún hafi aldrei fengið vinnufrið og að starfsfólkið hafi ekki skilið baráttu hennar.
Ekki hefur heldur náðst í hana eða Viðar Þorsteinsson, fyrrverandi framkvæmdastjóra, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.