Gert ráð fyrir 89 milljóna kr. afgangi í Kópavogi

Kópavogsbær.
Kópavogsbær. mbl.is/Hjörtur

Gert er ráð fyrir 89,3 milljón króna rekstrarafgangi á samstæðu Kópavogsbæjar árið 2022 en 13,7 milljón króna afgangi í A-hluta. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Kópavogsbæ um fjárhagsáætlun bæjarins fyrir árið 2022 sem var til umræðu í bæjarstjórn Kópavogs í dag.

Ætla að lækka skatta enn frekar

Í fjárhagsáætluninni sé lögð rækt við grunnþjónustu sveitarfélagsins og áhersla lögð á að málefni barna endurspeglist í henni, að því er greint frá í tilkynningunni. Þar megi helst nefna byggingu nýs Kársnesskóla, nýjan leikskóla við Skólatröð, verkefnið Okkar skóli sem feli í sér að börn ráðstafi fjármagni til að bæta aðstöðu í skólum og aukið fjármagn til barnaverndar.

Ekki er gert ráð fyrir óreglulegum tekjum í fjárhagsáætlun Kópavogsbæjar en stefnt er að úthlutun fjölbýlishúsalóða í Glaðheimum árið 2022 og verður fjármagnið sem fæst fyrir þær nýttar til að lækka vaxtaberandi skuldir.

Skattar verða lækkaðir eins og undanfarin ár. Lagt er til að fasteignaskattur á íbúðarhúsnæði lækki um 5,7%, eða úr 0,212% í 0,20%. Fasteignaskattur á atvinnuhúsnæði lækkar um 2%, úr 1,47% í 1,44. Sorphirðugjald hækkar vegna aukinna útgjalda við sorphirðu og -eyðingu en á móti kemur að vatnsskattur og holræsagjöld lækka.

Útsvar fyrir árið 2021 verður óbreytt eða 14,48%.

250 milljónir fari í kaup á félagslegu húsnæðu

Á áætlun ársins 2022 er m.a. gert ráð fyrir 250 milljónum króna í kaup á félagslegu húsnæði en þessir fjármunir eru hugsaðir sem 12% framlag á móti 18% framlagi frá ríkinu. Töluverð útgjaldaaukning er í málafloknum eða um 870 milljónir sem koma til vegna aukinnar þjónustu í nýju húsnæði en einnig vegna áhrifa styttingar vinnuvikunnar hjá vaktavinnufólki.

Gert er ráð fyrir fjármagni í áætlun til reksturs Geðræktarhúss í húsnæði gamla Hressingarhælisins. Þar muni fara fram fræðsla og færniþjálfun er lítur að því að bæta andlega vellíðan í samræmi við markmið lýðheilsustefnu bæjarins um aukna geðrækt, að því er greint frá í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert