Guðríður Aadnegard hlaut hvatningarverðlaun

Guðríður Aadnegard, ásamt forseta Íslands, mennta- og menningarmálaráðherra og formanni …
Guðríður Aadnegard, ásamt forseta Íslands, mennta- og menningarmálaráðherra og formanni Heimilis og skóla. MOTIV

Guðríður Aadnegard, námsráðgjafi og umsjónarkennari við Grunnskólann í Hveragerði, hlaut hvatningarverðlaun dags gegn einelti í dag. Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, og Lilja Dögg Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra afhentu henni verðlaunin við hátíðlega athöfn í Rimaskóla.

Þetta kemur fram í sameiginlegri tilkynningu frá Heimili og skóla, landssamtökum foreldra, Ekkert hatur, verkefni gegn hatursorðræðu, og SAFT, vakningarátaki um örugga og jákvæða tölvu- og nýmiðlanotkun barna og unglinga á Íslandi.

Þykir góð fyrirmynd fyrir aðra kennara

Fagráð gegn einelti hjá Menntamálastofnun valdi verðlaunahafa úr innsendum tilnefningum og varð Guðríður fyrir valinu vegna þess ómetanlega starfs sem hún hefur unnið í eineltismálum undanfarin ár. Hún sé þar að auki góð fyrirmynd fyrir aðra kennara þegar kemur að samskiptamálum nemenda, að því er greint frá í tilnefningunni. Hún hafi í gegnum tíðina látið málefni nemenda sig sérstaklega varða og nálgast þau af mikilli hlýju og virðingu. Þá hafi Guðríður einnig látið til sín taka á vettvangi íþrótta þar sem hún starfaði í broddi fylkingar hjá HSK, UMFÍ og ÍSÍ. Þar hafi hún sem fyrr ávallt haft hag iðkenda að leiðarljósi og lagt ríka áherslu á góð samskipti innan vallar sem utan.

Guðríður Aadnegard, verðlaunahafi Hvatningaverðlauna dags gegn einelti 2021.
Guðríður Aadnegard, verðlaunahafi Hvatningaverðlauna dags gegn einelti 2021. MOTIV

Sigrún Edda Eðvarðsdóttir, formaður Heimilis og skóla, og Sigrún Garcia Thorarensen, formaður fagráðs gegn einelti, ávörpuðu samkomuna auk forseta Íslands, mennta- og menningarmálaráðherra og verðlaunahafans. Nemendur Rimaskóla settu einnig skemmtilegan svip á dagskrána. Stúlkur í 5. bekk dönsuðu vinadans, atriði skólans úr Skrekk var flutt en það fjallar um einelti gegn nýjum nemenda í skóla og Kolbrún Arna Káradóttir, nemandi í 9. bekk flutti ljóð sitt „Það þarf aðeins einn“ sem hún samdi í tilefni af degi gegn einelti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert