Hótaði að yfirgefa Deutsche Grammophon

Píanóleikarinn Víkingur Heiðar Ólafsson hefur þurft að berjast fyrir því að fá að fara eigin leiðir í tónlistinni.

Eftir að hafa fengið skýr skilaboð um að hann ætti að halda sig við samtímatónskáldið Philip Glass hótaði hann að yfirgefa útgáfurisann Deutsche Grammophon ef hann fengi ekki að gefa út plötu með tónlist Bach. Hann fékk það í gegn og reyndist hún mun söluhærri en platan sem á undan kom.

„Þá fyrst þurfti ég að berjast fyrir tilverurétti mínu og ég hótaði því að fara frá Deutsche Grammophon ef ég fengi ekki að gera Johann Sebastian Bach. Fyrir mig er hann bara súrefni, hann er bara vatn. Hann er það sem ég þarf í tónlist og hann er það sem skilgreinir mig kannski mest í hvernig ég hugsa og hlusta á tónlist.“

Víkingur leggur áherslu á það að listamenn verði að geta komið á óvart. „Markmiðið er að
vera á undan bransanum, að enginn viti hvað komi næst,“ segir hann. Það sé stóra áskorunin.

Nú síðast kom út platan Mozart & Contemporaries, sem hefur vakið mikla eftirtekt, og það verður forvitnilegt að vita upp á hverju píanóleikarinn tekur næst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert