Ítalskir fjölmiðlar fjalla um íslenska ræktun

Hörður Bender hvítlauksbóndi.
Hörður Bender hvítlauksbóndi. Ljósmynd/Íris Þorsteinsdóttir

Fréttir af íslenskum hvítlauk hafa ratað út fyrir landsteinana og birst á þó nokkrum ítölskum miðlum. Þykir þá áhugavert að Íslendingum hafi tekist að rækta hvítlauk á sveitabæ í nálægð við Hvolsvöll þrátt fyrir kalt veðurfar á landinu.

Eins og greint var frá í Morgunblaðinu hafa hjónin Hörður Bender og Þórunn Jónsdóttir ásamt fimm börnum þeirra á sveitabænum Efri-Úlfsstöðum í Landeyjum, komið á fót hvítlauksræktun. Var uppskeran í ár eftirsótt meðal landsmanna en tonnið sem kom upp í haust seldist upp á tæpum sólarhring í verslun Hagkaups.

Fréttir af ræktuninni hafa heldur betur vakið lukku meðal Ítala, sem þekktir eru fyrir að vera miklir matgæðingar, en miðlar á borð við Dissapore og IlPost hafa einnig vakið athygli á uppátæki fjölskyldunnar. Er þar meðal annars fjallað um að hvítlaukur þurfi yfirleitt að vaxa í nokkrar vikur við hitastig undir 10 gráðum en að hins vegar geti of kalt loftslag einnig komið í veg fyrir vöxt. Sé því ferlið vandmeðfarið og vaxi hvítlaukurinn hægt í íslensku umhverfi, sem gerir hann þó einnig afar bragðmikinn fyrir vikið.

Þykir þá einnig áhugavert að þó þetta sé vissulega ekki í fyrsta skiptið sem hvítlaukur hafi verið ræktaður á Íslandi þá sé „Bender-býlið“ fyrst til að gera það á stórum skala.

Íslenski hvítlaukurinn vex hægt.
Íslenski hvítlaukurinn vex hægt. Ljósmynd/Íris Þorsteinsdóttir

Frétti af ítölsku fréttunum fyrir tilviljun

Í samtali við blaðamann sagði Hörður áhugann á Ítalíu koma verulega á óvart og hafi hann sjálfur frétt af þessu fyrir hálfgerða tilviljun.

Hafði íslenska hvítlauksræktunin komið upp í samtali milli mágs Harðar, Emils Hallfreðssonar fyrrum landsliðsmanns, og ítalska sjúkraþjálfara hans sem hafði einmitt lesið um uppskeruna á ítölskum miðlum. Þegar sjúkraþjálfarinn spurði Emil hvort hann vissi eitthvað um þetta, gat fótboltakappinn að sjálfsögðu tekið undir enda væri ræktandinn enginn annar en bróðir eiginkonu hans, Ásu Maríu Reginsdóttur.

„Litli heimur, þetta er ótrúlegt,“ segir Hörður og hlær við þegar hann útskýrir söguna fyrir blaðamanni.

Ítalskir miðlar sýna íslenska hvítlauknum athygli.
Ítalskir miðlar sýna íslenska hvítlauknum athygli. Ljósmynd/Íris Þorsteinsdóttir

Mikill áhugi erlendis frá

Hörður veit ekki til þess að fleiri erlendir miðlar hafi tekið fyrir ræktun hans fyrir utan þá ítölsku. Hann bætir þó við að hann hafi fundið fyrir verulegum áhuga erlendis frá almennt í ljósi frétta um hve bragðmikill hvítlaukurinn væri. Hafi hann þá fengið fjölda fyrirspurna í gegnum tölvupóst um hvernig sé hægt að kaupa laukinn, sem því miður er uppseldur eins og áður hefur komið fram.

Líkt og mörgum er kunnugt hafa Emil og Ása stofnað fyrirtækið OLIFA og flytja þau meðal annars ólífuolíur frá Ítalíu. Spurður hvort Íslendingar ættu von á að sjá íslenska hvítlauksolíu á markaði von bráðar, segir Hörður það vera til skoðunar. Hafi þá möguleiki um samstarf milli þeirra systkina borið á góma.

„Það væri gaman að senda íslenska hvítlaukinn til Ítalíu og búa til íslenska hvítlauksolíu þar eða eitthvað svoleiðis. Það væri frekar klikkað.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert