Leikskólakennarar fjórðungur starfsfólks

Leikskólabörn.
Leikskólabörn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Alls störfuðu 1.628 leikskólakennarar í leikskólum á Íslandi í desember 2020, eða 25,7% starfsfólks við uppeldi og menntun barna. Hefur þeim fjölgað um 43 frá síðasta ári.

Samtals höfðu 1.227 starfsmenn við uppeldi og menntun leikskólabarna lokið annarri uppeldismenntun, s.s. grunnskólakennaranámi, þroskaþjálfun, diplómanámi í leikskólafræðum eða leikskólaliðanámi og hefur orðið töluverð fjölgun í þeim hópi síðustu ár, að því er kemur fram í tilkynningu frá Hagstofu Íslands.

Af þessum starfsmönnum voru 114 kennarar sem höfðu menntað sig til kennslu á öðrum skólastigum en leikskólastigi. Ófaglært starfsfólk var rúmlega helmingur (55%) starfsfólks við uppeldi og menntun leikskólabarna í desember 2020.

Alls störfuðu 6.777 í leikskólum í desember 2020 og hafði þeim fjölgað um 367 (5,7%) frá fyrra ári þrátt fyrir að leikskólabörnum hafi einungis fjölgað um 134 (0,7%) börn á sama tíma.

Stöðugildum starfsmanna fjölgaði um 5,0% og voru 5.898.

Starfsmannavelta í leikskólum á milli áranna 2019 og 2020 var 20% og hefur ekki verið minni frá því að Hagstofan hóf að birta gögn um starfsfólk í leikskólum árið 1999.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert