Íslendingar treysta konum best til þess að gegna leiðtogastöðum samkvæmt niðurstöðum Reykjavik Index mælingarinnar, sem kynntar voru á Heimsþingi kvenleiðtoga í Hörpu í dag.
Mælingin byggir á könnun rannsóknarfyrirtækisins Kantar, sem mælir afstöðu almennings um allan heim til karla og kvenna sem leiðtoga.
Viðhorf Íslendinga er nú mælt í fyrsta sinn og sá Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands um framkvæmd könnunarinnar hér á landi. Sama könnun er framkvæmd í öllum G-20 ríkjunum, tuttugu stærstu iðnríkjum heimsins.
Af hundrað stigum mögulegum mældist Ísland með 92 stig þar sem hundrað stig myndu þýða að karlar og konur þættu jafnhæf til stjórnunarstarfa á öllum sviðum samfélagsins.
Í skýrslu Kantar segir að með þessum niðurstöðum festi Ísland sig í sessi sem leiðandi þjóð í jafnréttismálum.
Meðalstigafjöldi yfir öll G7-ríkin þetta árið er 73 og 68 á meðal G-20 ríkjanna. Rannsóknin í ár er sú viðamesta frá upphafi og varpar ljósi á rótgróna fordóma í garð kvenleiðtoga á heimsvísu.
Mikill munur reyndist vera á milli viðhorfa íbúa G-20 landanna til trausts til kvenleiðtoga. Mest var traustið til kvenna á Spáni, 82 stig og minnst í Indónesíu, 47 stig.