Nokkrar klukkustundir í staka færslu á Facebook

Jeffrey Ross Gunter, fyrrverandi sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi.
Jeffrey Ross Gunter, fyrrverandi sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi. mbl.is/Sigurður Bogi

Staðgengill sendiherra Bandaríkjanna og varasendiherra landsins hér á landi vinna að því að endurlífga starfsandann í sendiráðinu, í kjölfar óstjórnar og skaðlegs vinnuumhverfis í tíð fyrrverandi sendiherrans Jeffrey Ross Gunter.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýútgefinni skýrslu innra eftirlits bandaríska utanríkisráðuneytisins. Eftirlitið hóf rannsókn sína um miðjan mars í ár og stóð hún fram til loka júní.

Greint var fyrst frá niðurstöðunum á mbl.is í gærkvöldi. Í skýrslunni er þó fundið að fleiru en þar var talið upp.

Höfðu samband við sálfræðing í Lundúnum

Segir í henni meðal annars að starfsmenn séu enn, mörgum mánuðum eftir brotthvarf sendiherrans, að jafna sig á því ógnandi umhverfi sem hann mun hafa skapað.

Tekið er fram að staðgengillinn Harry R. Kamian, sem hóf störf í janúar,  og varasendiherrann Michelle M. Yerkin, sem kom til sendiráðsins í júlí á síðasta ári, hafi eftir brotthvarf Gunters beitt sér fyrir því að bæta umhverfi starfsmanna sendiráðsins.

Til dæmis hélt staðgengillinn fund með starfsmönnum á sínum fyrsta degi, þar sem hann lagði áherslu á að nú yrði snúið aftur til hefðbundins reksturs sendiráðs, að því er segir í skýrslunni. Til viðbótar hafi varasendiherrann haft samband við sálfræðing í Lundúnum til að greina starfsandann og leggja til aðgerðir til að koma til móts við áhyggjur starsfmanna.

Gunter, hér með Guðna Th. Jóhannessyni forseta Íslands.
Gunter, hér með Guðna Th. Jóhannessyni forseta Íslands. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Umdeildar yfirlýsingar sendiherrans

Einnig er vikið að því að Gunter hafi ítrekað farið á svig við samskiptareglur stjórnarerindreka.

 „Til dæmis, færsla fyrrverandi sendiherrans á Facebook-síðu sendiráðsins, þar sem gefið var í skyn að Bandaríkin væru að fjárfesta fyrir meira en 170 milljónir dala í ýmsum verkefnum á Íslandi, sem þáttur í langtímaáætlun um eflingu samstarfs Íslands og Bandaríkjanna.“

Þessi og fleiri yfirlýsingar sendiherrans hafi verið umdeildar á meðal íslensks almennings.

Í kjölfarið er vísað til yfirlýsinga háttsettra íslenskra embættismanna, við komu staðgengils sendiherrans og svo síðar þegar hann átti með þeim fundi. Þær hafi endurspeglað hversu mikið íslenska ríkisstjórnin hafi kunnað að meta það að aftur væri borin virðing fyrir diplómatískum samskiptareglum.

Skýrslugjöfin ekki samræmst kröfum í Washington

Gunter virðist í fleiri atriðum ekki hafa þóknast ráðuneytinu í höfuðborginni Washington.

„Embættismenn í Washington, sem eftirlitið talaði við, sögðu að skýrslugjöf sendiráðsins undir stjórn sendiherrans fyrrverandi hefði ekki náð nægilega yfir helstu atriðin sem þeim fannst áhugaverðust,“ segir í skýrslunni.

„Síðan í janúar þá hafa staðgengillinn og varasendiherrann hvatt [deildina] til að koma aftur á sambandi við tengiliði innan sem utan stjórnkerfisins og framleiða fréttaskeyti sem svara til áhugans í Washington. Embættismenn í Washington sem eftirlitið talaði við lofuðu gæðin í nýjustu skeytum deildarinnar og bentu á skrif þeirra um öryggismál og Norðurskautið sem sérstaklega gagnleg.“

Hvað varðar það hlutverk sendiráðsins að höfða til íslensks almennings segir í skýrslunni að á því hafi orðið nokkrir örðugleikar, þar á meðal takmarkanir vegna faraldurs kórónuveirunnar sem komið hafi í veg fyrir viðburðahald.

Bitnaði á getu deildarinnar

Einnig hafi dálæti Gunters á samfélagsmiðlum, umfram aðrar leiðir til að höfða til fólks, valdið töluverðu aukaálagi á þeirri deild sem annast meðal annars þá miðla. Það hafi svo bitnað á getu hennar til að skipuleggja og halda úti starfi gagnvart almenningi.

„Til dæmis, þá eyddi [deildin] að jafnaði nokkrum klukkustundum í að vinna með sendiherranum fyrrverandi til að framleiða eina staka færslu á samfélagsmiðlum.“

Fjöldi annarra athugasemda er gerður í skýrslunni. Lúta þær að ýmsum atriðum og misveigamiklum. Meðal annars er fundið að því að sendiráðið hafi ekki komið á fót skjalageymsluferli eins og reglur ráðuneytisins kveða á um. Þá hafi ekki verið haldið skipulega utan um gögn yfir svokölluð erindaskipti undanfarin þrjú ár, eins og reglur geri þó ráð fyrir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert