Sendiráðið fór ekki eftir kjarasamningum

Sendiráð Bandaríkjanna við Engjateig. Mynd úr safni.
Sendiráð Bandaríkjanna við Engjateig. Mynd úr safni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Skilti skortir fyrir utan nýja bandaríska sendiráðið við Engjateig, þar sem ætti að finna leiðbeiningar fyrir þá sem eiga þangað erindi auk upplýsinga um þá þjónustu sem það veitir.

Þetta er meðal þess sem bent er á í nýrri skýrslu innra eftirlits bandaríska utanríkisráðuneytisins, sem mbl.is greindi fyrst frá í gærkvöldi.

Segir þar að við rannsókn eftirlitsins, sem fór fram fyrr á þessu ári, hafi komið í ljós að verðir rétti út blöðunga til þeirra sem koma að sendiráðinu til að fá þar þjónustu. Á blöðungunum hafi verið upplýsingar líkar þeim sem vanalega megi finna á skiltum sendiráða og ræðisskrifstofa.

„Skortur á skiltunum eykur hættuna á því að bandarískir ríkisborgarar í leit að neyðaraðstoð fái ekki þjónustu að loknum hefðbundnum afgreiðslutíma,“ segir í skýrslunni.

Gæti stofnað Bandaríkjamönnum í aukna hættu

Einnig sé þörf á að efla varnir gegn svikum og fræðslu fyrir starfsmenn um hvernig varast megi þeim og sömuleiðis eiga við þau, komi slík mál upp. Þá þurfi að bæta þjálfun í krísustjórnun.

Bent er á að fá þurfi upplýsingar í smáatriðum frá neyðarviðbragðsstjórnendum á Íslandi og einnig stofnunum og samtökum sem ekki eru á vegum ríkisins, til að kynnast betur þeirra áætlunum og þeim tilföngum sem þau gætu útvegað á neyðarstundu.

„Skortur á undirbúningi fyrir krísu gæti stofnað bandarískum ríkisborgurum í aukna hættu, ef krísa kemur upp.“

Engar árlegar hækkanir uppbóta

Við lestur skýrslunnar vekur ein athugasemd einna mesta athygli. Hún lýtur að því að kjör starfsfólks við sendiráðið hafi „ekki að fullu endurspeglað ríkjandi kjarafyrirkomulag“ á Íslandi, eins og kveðið sé á um í reglum ráðuneytisins.

Nánar tiltekið þá hafi kjörin ekki verið samkvæmt kjarasamningum þegar horft sé til staðlaðrar íslenskrar vinnuviku, árlegs orlofs, flutnings orlofsréttinda á milli vinnuveitenda og launa á bakvöktum.

Þessu til viðbótar komst eftirlitið að því að sendiráðið hafði ekki komið til leiðar árlegum hækkunum sumar- og jólauppbóta, allt frá árinu 2009, jafnvel þó að kveðið sé á um það í kjarasamningum.

Tekið er fram að í svari við athugasemd eftirlitsins segi að nú sé unnið að því að koma til móts við ábendingar starfsfólks vegna þessa. Meðal annars sé verið að skoða núgildandi kjarasamninga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert