Smit á geðdeild og óskað eftir aðstoð bakvarða

Smit kom upp á geðdeild Landspítalans í gær.
Smit kom upp á geðdeild Landspítalans í gær. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Inniliggjandi sjúklingur á geðdeild Landspítalans greinist með Covid-19 í gær. Viðkomandi er í einangrun og sex samsjúklingar í sóttkví. Þá voru þrír nýútskrifaðir sjúklingar einnig settir í sóttkví. Þetta kemur fram í tilkynningu frá farsóttarnefnd Landspítalans.

Sjúklingurinn var með neikvætt sýni við innlögn en fékk svo einkenni um helgina sem gátu bent til covid. Því var strax í gærmorgun tekið einkennasýni sem reyndist jákvætt. 

Fram kemur að rakning í starfsmannahópnum standi yfir en ljóst sé að nokkur hópur starfsmanna þurfi að fara í sóttkví vegna smitsins. Heildarfjöldi liggi þó ekki fyrir fyrr en síðar í dag. Þá voru allir sjúklingar á deildinni skimaðir í morgun og er niðurstöðu einnig að vænta í dag.

Vegna þess hve margir starfsmenn geðþjónustu spítalans koma til með að fara í sóttkví óskar farsóttarnefndin sérstaklega eftir liðsinni bakvarða með bakgrunn í geðheilbrigðisþjónustu, bæði faglærðra jafnt sem ófaglærðra.

Símtölum til nýsmitaðra forgangsraðað

Líkt og fram hefur komið er Landspítalinn á hættustigi vegna mikillar fjölgunar smita í samfélaginu, en 168 greindust með smit innanlands í gær. Er það metfjöldi smita á einum degi frá upphafi faraldursins.

Símtölum til nýsmitaðra verður forgangsraðað og mega þeir sem eru bólusettir, í yngri kantinum og ekki með nein undirliggjandi vandamál, búast við að fyrsta símtal verði ekki fyrr en á næstu dögum. En farsóttarnefndin óskar einnig eftir liðsinni bakvarða í úthringiverið, bæði innan og utan Landspítala.

Í dag eru 14 sjúklingar á Landspítala með Covid-19. Þrír eru á gjörgæslu og tveir þeirra í öndunarvél. Tíu sjúklingar eru á smitsjúkdómadeild og einn á geðdeild.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert