Starfsfólk verkalýðshreyfingarinnar eigi virðingu skilið

Flosi Eiríksson, framkvæmdastjóri SGS.
Flosi Eiríksson, framkvæmdastjóri SGS. mbl.is/Eggert

Starfsfólk verkalýðshreyfingarinnar á ekki skilið að lítið sé gert úr störfum þess. Þetta ritar Flosi Eiríksson, framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins, í pistli sínum á heimasíðu sambandsins.

Starfsfólk sem brenni fyrir starfi sínu

Í pistlinum segir hann starfsfólk aðildarfélaga SGS brenna fyrir starfi sínu og baráttumálum hreyfingarinnar.

„Þetta fólk er í daglegum samskiptum við félagsmenn, hvort það er á skrifstofum félagsins, í eftirlitsferðum á vinnustöðum eða bara í sundi, hvert í sinni heimabyggð. Þau leggja sig fram um að aðstoða og liðsinna okkar félagsmönnum, hjálpa þeim að sækja rétt sinn og verja kjör þeirra og aðbúnað.“

Þá segir hann verkalýðshreyfinguna á Íslandi „stórt“ og „kraftmikið“ afl sem starfi í þágu launafólks en að auðvelt sé að missa sjónar á því.

Um það ber rúmlega aldargömul saga um átök og baráttu ríkulegt vitni.

Fagnar „líflegri“ umræðu um hreyfinguna

Að mati hans er bæði gott og heilbrigt að lífleg umræða sé uppi um starfið í verkalýðshreyfingunni, stefnu hennar og starfshætti. Hún sé lifandi hreyfing sem eigi að vera óhrædd við að ræða leiðir til að efla og bæta lífskjör í landinu.

Starfsfólk hreyfingarinnar um land allt, hvort sem það er hjá aðildarfélögum SGS eða öðrum stéttarfélögum eiga ekki skilið að gert sé lítið úr þeirra mikilvægu og góðu störfum, nóg er nú að okkur sótt þótt við tökum ekki þátt í því sjálf,“ segir hann.

Skrifstofur aðildarfélaga SGS séu mannaðar fólki sem leggi sig fram um að þjónusta sína félagsmenn af kostgæfni og gæta þeirra réttinda, alla daga, allt árið um kring, að sögn hans. Sú þjónusta sé eitt af þeirra hlutverka sem félagsmenn kunni best að meta og sæki mikið í.

Við eigum að tala þessa þjónustu upp, vekja á henni athygli og hvetja fólk til að sækja það sem þau þurfa til sinna félaga og taka þátt í starfi þeirra.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert