„Ég er bara hrærður, þakklátur og spenntur fyrir komandi verkefnum en um leið er það mjög skrítin tilfinning að stíga frá starfi sínu,“ segir Magnús Þór Jónsson, skólastjóri Seljaskóla og nýkjörinn formaður Kennarasambands Íslands, í samtali við mbl.is inntur viðbragða við niðurstöðum kosninganna.
Hann segist fyrst og fremst þakklátur fyrir þann meðbyr sem hann hlaut í kosningunni og það að íslenskir kennarar hafi treyst honum fyrir þeim verkefnum sem fram undan eru.
„Það er bara næsta verkefni að kafa enn dýpra ofan í þau og láta eitthvað gott af sér leiða. Það er það sem maður reynir alltaf.“
Inntur eftir því segist hann hafa verið hæfilega bjartsýnn á að ná góðu gengi í kosningunni. Kosningabaráttan hafi þó verið bæði löng og spennandi og hinir frambjóðendurnir öflugir.
„Ég reyndi bara að hitta sem flesta og hlusta sem mest. Mér fannst allir frambjóðendur leggja sig fram við að tala af virðingu um skólamál og hvert annað. Þetta var öflugt fólk sem ég var að keppa við þannig það var erfitt að gera sér grein fyrir því hvernig þetta færi. Ég fann þó alveg fyrir því að mér var vel tekið þar sem ég kom og fékk töluverð viðbrögð við því sem ég skrifaði en það var mikil óvissa alla leiðina. Þetta var bara spennandi og skemmtilegt eins og það á að vera. Þetta er starf sem á að keppast um alveg fram á síðustu stundu.“
Verðugt verkefni sé nú fram undan en það sé að ná saman þeim stóra og fjölbreytta hópi af fólki sem eiga aðild að sambandinu, að sögn Magnúsar.
„Þetta eru sjö öflug aðildarfélög sem snerta ólíkar skólagerðir og innan hverrar skólagerðar eru ólíkir skólar og ólík viðfangsefni. Sem formaður langar mig svolítið að demba mér í að virkja ákveðið sjálfstæði og ákveðna umræðu innan hvers félags fyrir sig en um leið að skýra einhvern veginn myndina um það hverju heildarsamtök svo ólíkra vinnustaða geti skilað fólki. Það er það sem verður verðugt verkefni fyrir okkur að vinna.“
Sem formaður sambandsins hyggst Magnús m.a. leggja áherslu á að bæta launakjör aðildarfélaga, breyta viðhorfi samfélagsins til kennarastéttarinnar, efla samfélagslega umræðu um gæði í íslensku skólastarfi og skoða hvernig bæta megi líðan kennara vegna álags á þá í starfi.
Inntur eftir því segir hann núgildandi aðalnámskrár vera börn síns tíma og að tími sé til kominn að endurskoða þær.
„Það er auðvitað bara mín persónulega skoðun en af minni reynslu minni hafa námskrár verið of ítarlegar og niðurnjörvaðar og gefa okkur kannski ekki færi á að nýta styrkleika hvers skóla fyrir sig.“
Þótt Magnús sé spenntur fyrir nýja hlutverkinu sem formaður og þeim verkefnum sem eru fram undan hjá honum segist hann kveðja Seljaskóla með miklum trega.
„Það er ákveðinn tregi sem fylgir því að stíga frá þeim öfluga vinnustað sem Seljaskóli er. Þetta er búið að vera frábær tími, með alveg gríðarlega öflugum kennarahópi og frábærum börnum og foreldrum. Að fá að vinna með nemendum að þroska þeirra og námi hefur alltaf verið rauði þráðurinn í mínu starfi. Það verður eitthvað sem ég mun sakna mjög.“